Skoðun

Leik – grunn – og tónlistarskóli í nýjum stjórnarsáttmála

Guðríður Arnardóttir skrifar
Allir flokkarnir sem buðu fram í aðdraganda nýafstaðinna kosninga til Alþingis voru sammála því að það þyrfti að styrkja menntakerfið og voru öll skólastig nefnd í því sambandi.

Nú þegar Katrín Jakobsdóttir leiðir stjórnarmyndunarviðræður flokka sem töluðu sérstaklega fyrir menntamálum við ég minna á eftirfarandi:

Sveitarfélögin í landinu reka leik- grunn- og tónlistarskóla. Verulega skortir á að kjör og starfsaðstæður þessara kennarahópa séu viðundandi.

Álag á kennara er óhóflegt og sýna gögn að kulnun í starfi og langtímaveikindi eru mest meðal kennara borið saman við aðrar háskólamenntaðar stéttir. Mestur er vandinn meðal leikskólakennara. Börn á leikskólum eru of mörg í hverju rými og of fáir kennarar starfa innan leikskólanna.

Kjarasamningar grunnskólakennara eru nú lausir og losna samningar tónlistarskólakennara næsta vor. Það liggur fyrir að ekki mun nást sátt um kjör þeirra og starfsaðstæður nema talsverð viðbót verði lögð til rekstrarins. Þá er ljóst að bættar aðstæður kennara og barna á leikskólum þolir enga bið.

Nú þegar ný ríkisstjórn er mögulega í fæðingu vil ég beina orðum mínum til þeirra sem skrifa nú nýjan stjórnarsáttmála.

Það er lykilatriði og hreinlega nauðsynlegt ef einhver sátt á að skapast um íslenskan vinnumarkað að sveitarfélögum í landinu verði gert kleyft að bæta kjör og starfsaðstæður kennara. Til þess verða þau að fá stuðning Alþingis til að rýmka tekjustofna sína.

Sveitarfélögunum er sniðinn þröngur stakkur þar sem Alþingi setur ramma um heimildir þeirra til að afla sér tekna. Framundan eru kjarasamningar við alla starfandi kennara sveitarfélaganna og eigi að skapast sátt um þá samninga þurfa sveitarfélögin að leggja meira fjármagn í rekstur leik- grunn- og tónlistarskóla.

Nú verður ný ríkisstjórn að standa við fyrirheit um stórsókn í menntamálum. Til þess að svo megi verða má ekki gleyma hlut sveitarfélaganna í menntakerfi landsins og verður Alþingi að tryggja sveitarfélögunum í landinu auknar heimildir til að afla sér tekna. Þar er brýnt að tryggja sveitarfélögum hlut í fjármagnstekjuskatti og veita þeim heimildir til að hækka útsvar. Það vil ég meðal annars sjá í nýjum stjórnarsáttmála.

Höfundur er formaður félags framhaldsskólakennara.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×