Innlent

Katrín fær umboðið og stefnt á stjórnarskipti á fimmtudag

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, við upphaf fundar þeirra í morgun.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, við upphaf fundar þeirra í morgun. vísir/vilhelm
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur veitt Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, umboð til stjórnarmyndunar. Þetta tilkynnti forsetinn í samtali við blaðamenn að loknum fundi sínum með Katrínu í morgun.

„Um nokkurt skeið hafa Katrín, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, rætt um myndun ríkisstjórnar þessara flokka. Nú liggur fyrir í megindráttum stjórnarsáttmáli slíkrar stjórnar,“ sagði forsetinn.

„Á morgun munu stofnanir flokkanna þriggja greiða atkvæði um hann. Þá er um það samkomulag að styðji flokksstofnanir samkomulagið verði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.“

Ekki algilt að einhver einn leiði viðræður

Forsetinn tíundaði einnig ástæður þess að hann hafi ekki veitt neinum formanni flokkanna þriggja umboðið fyrr í viðræðunum. Hann segir það augljósa hefð í íslenskum stjórnmálum að einhver einn flokksformaður fái umboð til stjórnarmyndunar og leiði þannig viðræðurnar.

„Það verklag er þó alls ekki algilt og í þessu tilfelli var niðurstaðan sú að heillavænlegast yrði að flokkarnir ræddu saman án þess að einn leiddi för.“

Hann segir þó þarft að einn flokksleiðtogi hafi stjórnarmyndunarumboð á hendi þegar viðæðurnar eru farnar að skýrast eins og nú og því hafi Katrín fengið umboðið í dag.

Aðspurður hvort hann hafi trú á ríkisstjórn flokkanna þriggja sagði forsetinn að svo væri. Hann segist vonast til að formleg stjórnarskpiti verði á fimmtudaginn, 30. nóvember. Þá verði haldnir tveir ríkisráðsfundir á Bessastöðum. Einn með fráfarandi starfstjórn og einn með nýrri ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Blaðamannafund forsetans má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×