Innlent

Formaður Prestafélags Íslands: „Umfjöllunin til þess fallin að varpa sérstaklega rýrð á biskup“

Þórdís Valsdóttir skrifar
Kristján Björnsson, sóknarprestur og formaður Prestafélags Íslands.
Kristján Björnsson, sóknarprestur og formaður Prestafélags Íslands. Vísir/aðsend
Kristján Björnsson sóknarprestur og formaður Prestafélags Íslands segir umjöllun fjölmiðla um sérúrskurð kjararáðs um laun biskupa og presta ranga og villandi. Hann segir umjöllun um málið til þess fallna að varpa rýrð á Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup, persónulega.

Kristján sendi ritsjórn Vísis, Fréttablaðsins og Stöð 2 tölvupóst fyrr í kvöld þar sem hann segist vilja koma fram ákveðinni leiðréttingu eða áréttingu um málið.

Kristján segir að Prestafélag Íslands hafi árið 2015 óskað eftir því við kjararáð að kjör félagsmanna yrðu tekin til umfjöllunar. „Fyrir þann tíma höfðu fulltrúar PÍ gengið á fund kjararáðs og rætt um það hvort nauðsyn eða breyttar aðstæður hafi orðið á starfi presta sem kallað gætu á sérstakar ákvarðanir kjararáðs. Það verður þess vegna að teljast frekar grunn umfjöllun Fréttablaðsins þegar því er haldið á lofti að biskup Íslands hafi sóst eitthvað óeðlilega mikið eftir því að kjör hennar verði bætt,” segir Kristján í bréfinu.

Hann segir að meginforsenda þessara úrskurða kjararáðs séu þær sömu og liggi að baki leiðréttingu á kjörum allra þeirra sem heyra undir ráðið í launalegum efnum.

Biskupssetrið ekki eign Biskupsstofu

Kristján telur umfjöllun um leigu af biskupssetrinu við Bergstaðastræti 75 einnig til þess fallna að varpa sérstaklega rýrð á biskup Íslands og segir að allur samanburður í fréttaflutningi til þess fallinn

„Biskupssetrið er embættisbústaður líkt og vígslubiskupsbústaðirnir í Skálholti og á Hólum. Þetta eru leyfar af gömlu kerfi embættisbústaða sem fleiri voru undir og því er með öllu óeðlilegt og óupplýsandi að bera það saman við einfalda húsaleigu á almennum markaði eða á stúdentagörðum,” segir Kristján í bréfinu.

Hann segir greiðsluna sem um ræðir ekki hafa áhrif á ákvörðun kjararáðs og segir að biskupsgarður sé opinbert heimili og móttökuhús embættisins. „Hugmyndir um verðgildi hússins kemur málinu ekki við þar sem það varðar eingöngu efnahagsreikning kirkjumálasjóðs þjóðkirkjunnar en ekki launalega eða eignalega stöðu biskups Íslands. Þessi eign er ekki einu sinni eign Biskupsstofu,” segir hann og bendir á að lögum samkvæmt eigi biskupar að hafa aðsetur á biskupssetrunum.


Tengdar fréttir

Agnes borgar tæp 90 þúsund í leigu fyrir biskupsbústaðinn

Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, tiltók í bréfi sínu til kjararáðs sérstaklega að hún greiddi nú leigu fyrir afnot af embættisbústað sínum. Húsaleigan nemur að hennar sögn tæpum 90 þúsund krónum á mánuði.

Biskup knúið á um kauphækkun í rúm tvö ár

Kjararáð hefur ákveðið að hækka mánaðarlaun Biskups Íslands um 271 þúsund krónur og er hækkunin afturvirk frá síðustu áramótum, sem færir biskupi 3,3 milljónir króna í eingreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×