Fótbolti

Andri Rúnar fer með íslenska landsliðinu til Indónesíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason með gullskó Adidas.
Andri Rúnar Bjarnason með gullskó Adidas. Mynd/Adidas
Andri Rúnar Bjarnason, markakóngur Pepsi-deildar karla 2017 og markametshafi, spilar væntanlega sinn fyrsta A-landsleik í Indónesíu seinna í þessum mánuði.

Andri Rúnar segir í viðtali við heimasíðu sænska liðsins Helsingborg að hann sé á leiðinni með íslenska landsliðinu til Indónesíu frá 6. til 16. janúar næstkomandi.



Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, valdi 22 manna hóp um miðjan desember en hefur þurft að gera nokkrar breytingar á honum vegna forfalla leikmanna.

Albert Guðmundsson, Orri Sigurður Ómarsson og Ólafur Ingi Skúlason höfðu allir komið inn í upprunalega hópinn og nú bætist Andri Rúnar við.

„Ég er mjög spenntur enda hefur þetta verið draumur minn frá því að ég var lítill strákur,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason í viðtalinu á heimasíðu Helsingborg sem sjá má hér fyrir neðan.





Andri Rúnar Bjarnason skoraði 19 mörk í 22 leikjum í Pepsi-deild karla síðasta sumar og jafnaði þar með markamet þeirra Péturs Péturssonar, Guðmundar Torfasonar, Þórðar Guðjónssonar og Tryggva Guðmundssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×