Viðskipti innlent

Telja bréf HB Granda yfirverðlögð

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Capacent reiknar með rekstrarbata hjá HB Granda á næstu árum.
Capacent reiknar með rekstrarbata hjá HB Granda á næstu árum. Vísir/GVA
Hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækinu HB Granda eru verulega yfirverðlögð samkvæmt verðmati sérfræðinga Capacent. Þeir meta gengi bréfanna á 22,4 krónur á hlut sem er um 39 prósentum undir markaðsgengi bréfanna eftir lokun markaða í gær.

Greinendur Capacent taka fram að félagið sé vel rekið. Hins vegar séu rekstraraðstæður í sjávarútvegi erfiðar og það ætti að endurspeglast í verðmati. Segir í verðmatinu að mikla bjartsýni þurfi til að rökstyðja núverandi markaðsvirði félagsins út frá hefðbundnu sjóðstreymisverðmati.

„Þótt ekki sé útlit fyrir sjómannaverkfall í bráð er ljóst að rekstrarskilyrði í sjávarútvegi eru erfið með sterka krónu, óvissu á vinnumarkaði með tilheyrandi launaskriði og olíuverði á uppleið.

Það er þó ekki einungis sjóðstreymisverðmat sem bendir til að verðið sé hátt því verðkennitölur Granda eru um tvöfalt til þrefalt hærri en erlendra félaga í fiskvinnslu og sjávarútvegi,“ segir í verðmatinu.

Til varnar háu markaðsvirði megi þó benda á að ástand fiskistofna á Íslandsmiðum sé gott og hafi farið batnandi.

Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×