Manninum var hins vegar ekki vikið úr starfi á skammtímaheimili fyrir ungmenni í vanda fyrr en í síðustu viku. Daginn eftir var hann settur í gæsluvarðhald. Maðurinn starfaði því með ungmennum í rúma fimm mánuði eftir að kæran var lögð fram.
Til þessara aðgerða er gripið í viðleitni embættisins til að tryggja að engin mál, sambærileg máli mannsins sem um ræðir, komi upp. Lögregla hefur viðurkennt mistök og yfirsjón í málinu. Samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglunnar segir að starfsmenn deildarinnar hafi talið að meintur gerandi hefði verið stuðningsfulltrúi kæranda, en ekki litið þannig á að viðkomandi starfaði enn að barnaverndarmálum.

„Þetta er fólk sem vill veita stuðning varðandi rannsókn, staðfesta lýsingar og brot. Ég hef hvatt þetta fólk til að senda inn kæru.“
Aðspurður segir hann þessa einstaklinga ekki hafa tilgreint sérstaklega hvar þeir hafi kynnst manninum, það er að segja hvort um sé að ræða ásakanir um brot gegn börnum sem honum hefur verið trúað fyrir starfa sinna vegna.
„En þetta eru einstaklingar sem kannast við lýsingar á manninum og segjast hafa átt í samskiptum við hann. Sumir eru eingöngu að koma fram til að veita stuðning. Það er bara misjafnt.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem maðurinn er kærður fyrir kynferðisbrot, en í febrúar 2013 kærði ungur piltur manninn fyrir kynferðislega áreitni. Meint brot eiga að hafa staðið yfir þegar drengurinn var á aldrinum 10 til 17 ára. Maðurinn var ekki boðaður í skýrslutöku vegna málsins fyrr en í september sama ár. Hann neitaði sök og með bréfi í nóvember 2013 var ætlað brot talið fyrnt.