Karlmaður var fluttur meðvitundarlaus á slysadeild Landspítalans eftir að hafa orðið fyrir árás þriggja manna í Austurstræti á þriðja tímanum í nótt.
Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um árásina klukkan 2:38 en í dagbók lögreglu segir að þrír menn voru þar sagðir hafa ráðist á manninn og náðu tveir að komast undan áður en lögregla kom á vettvang.
Einn maður handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu, en ekki er vitað um meiðsl árásarþola.
Hrækti á dyravörð
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og eru allar fangageymslur nú fullar í Reykjavík.
Skömmu eftir klukkan 21 í gærkvöldi var maður, sem var ofurölvi, handtekinn við Hlemm þar sem hann var búinn að vera til vandræða. Í nótt voru sömuleiðis afskipti höfð af manni í Hafnarstræti, en hann mun hafa verið að ráðast að fólki og sparka í bíla.
Um hálf tvö í nótt var tilkynnt um ölvaðan mann við veitingahús í Austurstræti, en hann mun hafa hrækt á dyravörð. Maðurinn verður kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Fannst meðvitundarlaus eftir að hafa runnið í hálku
Skömmu eftir klukkan þrjú í nótt var tilkynnt um meðvitundarlausan mann við Engjaveg. Er talið að maðurinn hafi dottið í hálku og var hann með ávarka á höfði. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.
Lögregla stöðvaði einnig fjölda bíla þar sem ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

