Íbúum í þéttbýli hefur hins vegar fjölgað á þessum tíma. Árið 1920 bjuggu aðeins tæplega 2.000 manns á Ísafirði en nú búa í hinu sameinaða sveitarfélagi Ísafjarðar tæplega 4.000 manns sem sýnir á einhvern hátt þá breytingu sem hefur átt sér stað í stærsta sveitarfélagi landshlutans.
Einnig er áhugavert að sjá að fjölgunin í Vesturbyggð síðustu fimm ár er meiri en landsmeðaltalið sem segir okkur að sunnanverðir Vestfirðir eru ákjósanlegt búsetusvæði séu atvinnutækifæri fyrir hendi.

Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðar, segir fjórðunginn vera að spyrna við fótum. Ný atvinnutækifæri í sjókvíaeldi blási íbúum von í brjóst og ljóst sé að fjöldi einstaklinga hafi flust vestur til að taka þátt í uppbygginu þessa nýja atvinnuvegar. „Það er alveg ljóst að Vestfirðir eru ákjósanlegir til búsetu. Því er mikilvægt að við setjum fleiri stoðir undir byggðirnar. Þessar nýju stoðir eru ferðaþjónusta og eldi og við erum að sjá fjölskyldur koma hingað í leit að hagstæðu fasteignaverði og tryggri atvinnu,“ segir Arna.
Vestfirðir eru í raun þrjú svæði vegna ótryggra samgangna; suðurfirðir, Djúpið og svo Strandirnar. Dýrafjarðargöng munu fækka þessum svæðum í tvö. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir tengingu sunnanverðra Vestfjarða við þjóðveg 1 til háborinnar skammar. „Þá skiptir það engu hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd. þetta er bara til skammar og stendur atvinnulífi hér fyrir þrifum.“