Innlent

Á annað þúsund skjálftar mælst við Grímsey

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Um er að ræða mestu skjálftahrinu á þessu svæði síðan í apríl 2013.
Um er að ræða mestu skjálftahrinu á þessu svæði síðan í apríl 2013. Veðurstofa Íslands
Jarðskjálftahrina um 10-12 km norðaustan við Grímsey hefur staðið nær óslitið frá 14. febrúar og um hádegi þann 16. febrúar höfðu hátt í annað þúsund skjálftar mælst á svæðinu. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Rúmlega 10 skjálftar yfir 3.0 að stærð hafa  mælst og  þann 15. febrúar kl. 19:37 mældist skjálfti  af stærð 4.1. Sumir þessara skjálfta hafa fundist í Grímsey. Um er að ræða mestu skjálftahrinu á þessu svæði síðan í apríl 2013.

Þá kemur fram að skjálftavirknin sé líklega tengd flekaskilunum og jarðhitavirkninni á þessum slóðum. Einnig kemur fram að á þessu svæði og á öllu Tjörnesbrotabeltinu geta orðið mun stærri skjálftar og í kjölfarið á hrinum sem þessum geta orðið talsvert stærri skjálftar.


Tengdar fréttir

Grímseyingur flúði í bátinn sinn í skjálftunum í nótt

Yfir fjórtán hundruð jarðskjálftar hafa gengið yfir svæðið í og kringum Grímsey. Sjómaður í Grímsey hefur flúið í bátinn sinn enda hræddur við lætin en náttúruvásérfræðingur á veðurstofu Íslands segir GPS-mælingar ekki benda til kvikuhreyfinga þótt ekki sé hægt að útiloka stóra skjálfta á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×