Skoðun

Opið bréf til Jóhönnu Sigurðar og Loga

Birgir Örn Guðjónsson skrifar
Kæra Jóhanna Sigurðardóttir og Logi Einarsson. Til hamingju með nýafstaðinn landsfund. Ég trúi því og treysti að þar hafi farið fram frábær vinna og magnaðar umræður. Ég verð samt að viðurkenna að ég var pínu hissa þegar ég heyrði af ræðum ykkar á fundinum. Þar talaðir þú Jóhanna um að þið ættuð að beina spjótum ykkar í auknu mæli að öðrum flokkum, það er Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Logi tók undir það og vildi að flokkurinn notaði orkuna í „þennan raunverulega óvin í stjórnmálum“. Eftir að hafa heyrt þessi orð fannst mér ég verða að koma með eftirfarandi skilaboð til ykkar og flokkssystkina ykkar í Samfylkingunni;

Þið eruð ekki andstæðingar okkar. Þið eruð samherjar okkar í því mikilvæga verkefni að stjórna samfélaginu á allskonar sviðum. Við erum að sjálfsögðu ekki sammála í öllu, enda væri það í hæsta máta óeðlilegt. Það er einmitt fjölbreytileiki okkar og misjafnar skoðanir sem gera okkur að betra samfélagi. Stundum höfum við einhverja lausn, stundum þið og stundum getum við í sameiningu fundið þá lausn sem er lang best. Í stað þess að beina spjótum okkar og orku gegn hvert öðru ættum við að nota orkuna í okkur sjálf og samfélagið sem við viljum þjóna. Þá beinast spjótin okkar í sameiningu gegn hinum raunverulega óvini sem er ekki aðrir stjórnmálaflokkar heldur fátækt, óréttlæti, misrétti, sundrung og óhamingja.

Pólitík á Íslandi á sér vissulega misjafna sögu og saga sumra flokka er misjafnari en annarra. Það er samt fáránlegt að láta alla þá góðu einstaklinga sem finnast í öllum flokkum í dag, líða fyrir gamaldags og rotna pólitík sumra forvera þeirra. Það er löngu kominn tími á breytta nálgun. Þjóðin á það skilið. Þó við spilum í misjöfnum stöðum inni á vellinum þá erum við öll í sama liði. Gangi ykkur því sem allra best kæru vinir.

Baráttukveðjur.

Birgir Örn Guðjónsson, framsóknarmaður




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×