Erlent

Lögmaður Trump hættur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
John Dowd, lögmaður Trump.
John Dowd, lögmaður Trump. Vísir/Getty
John Dowd, aðallögmaður Donald Trump forseta Bandaríkjanna, í málefnum sem tengjast rannsókn sérstaks saksóknara á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum er hættur störfum fyrir forsetann.

Þetta kemur fram á vef CNN en í yfirlýsingu segist Dowd elska forsetann og óskar hann honum velfarnaðar í framtíðinni. Ekkert hefur verið gefið upp um ástæður þess að Dowd hafi sagt upp störfum en Trump hefur að undanförnu gagnrýnt Robert Mueller, sem leiðir rannsóknina, harkalega, ekki síst á Twitter. New York Times segir að Dowd hafi íhugað að hætta nokkrum sinnum síðustu mánuði. Á endanum hafi honum sýnst Trump vera farinn að hunsa ráðleggingar sínar æ oftar.

Stutt er síðan Dowd kallaði eftir því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna myndi stöðva rannsókn Mueller. Sagði hann rannsóknina vera gallaða og spillta af pólitískum sjónarmiðum. Í fyrstu sagði Dowd vera að tjá sig sem lögmaður Trump en dró þó fljótlega í land og sagðist ekki hafa vera að tala fyrir hönd forsetans.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu var Dowd þakkað fyrir störf hans en fyrr í vikunni réð Trump Joseph E. diGenova, lögmann og fyrrverandi ríkissaksóknara, til að bætast í hóp lögfræðiteymis síns. Er búist við því að hann muni leika aðalhlutverk í lögfræðiteymi Trump.

DiGenova þessi hefur meðal annars sakað FBI og dómsmálaráðuneytið um að hafa komið sök á Trump.

Heldur hann því fram að leynilegur hópur FBI-fulltrúa hafi búið til Rússarannsóknina til að koma í veg fyrir að Trump yrði forseti.

„Þetta var óskammfeilið samsæri til að hreinsa Hillary Clinton ólöglega af sök og ef hún ynni ekki kosningarnar, að koma sök á Donald Trump með glæpum sem voru ranglega búnir til,“ sagði diGenova við Fox News-sjónvarpsstöðina í janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×