Skoðun

Fyrirliði kvaddur

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Nýlega fylgdi ég merkri konu til grafar. Hún hét María Hildur Guðmundsdóttir og var fædd árið 1925. Hún átti mörg systkini en faðir þeirra var jarðsettur á níu ára afmælisdegi Maríu og upp frá því bjó fjölskyldan við lítil efni. Móðirin, Rannveig Majasdóttir, glímdi við heilsuleysi en tókst með mikilli þrautseigju að koma börnum sínum til manns. Það þótti t.d. mikið lán þegar fjölskyldan fékk „offiserabragga“ í Kamp Knox sem var bjartur og hlýr.

Sem barn og unglingur æfði María fimleika með fimleikaflokki Ármanns og sýndi með flokknum bæði í Reykjavík og úti á landi og þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk var haldið í sýningarferðir til útlanda. María æfði auk þess handbolta frá unga aldri með KR og varð bikarmeistari í handbolta utanhúss árið 1959, 34 ára gömul. Hún var fyrsti fyrirliði kvennalandsliðsins í handbolta og fyrsta landsleikinn léku þær í Ósló þann 19. júní árið 1956 og töpuðu 10-7. Má finna magnaða lýsingu í Morgunblaðinu frá þessum fyrsta leik þar sem m.a. er greint frá því þegar ein handknattleiksstúlkan gekk fram í íslenska búningnum eftir að þjóðsöngvarnir höfðu verið fluttir og afhenti norska fyrirliðanum fagran blómvönd.

Lífshlaup Maríu er merkilegt en það sem gladdi mig ekki síst þegar ég hóf að setja saman minningarorðin um hana var sú staðreynd að þegar hún var að alast upp á kreppu­árunum var þátttaka í íþróttum ekki bundin fjárhag fjölskyldunnar. Þessi unga íþróttakona fékk tækifæri til að æfa fimleika og handbolta og fara utan þrátt fyrir að búa í braggahverfi sem barn einstæðrar móður. Það má aldrei verða þannig á Íslandi að börn hafi ekki efni á að iðka íþróttir. Börnin okkar eiga að lifa við jöfn tækifæri á því sviði sem öðrum. Áfram Ísland.




Skoðun

Sjá meira


×