„Samkvæmt samtölum okkar við fólk í vettvangsferðinni til Íslands er það sambland nokkurra þátta sem bendir til þessa,“ segir Gianluca Esposito, sérfræðingur GRECO sem kom hingað til lands síðastliðið haust og er einn höfunda skýrslunnar.
Esposito vísar í fyrsta lagi til þess að þrátt fyrir að lögreglan sé í orði kveðnu undir stjórn og háð eftirliti ríkislögreglustjóra, sé ábyrgðarkeðjan innan löggæslunnar ekki lóðrétt heldur lárétt. Þannig heyri ekki aðeins ríkislögreglustjóri beint undir ráðherra, heldur heyri lögreglustjórar umdæmanna í raun ekki undir ríkislögreglustjóra heldur einnig beint undir ráðherra.
Þetta þýði að allir níu lögreglustjórar landsins stýri daglegum löggæslustörfum undir beinni stjórn ráðherra. Við þetta bætist einnig að héraðssaksóknari, sem hefur eftirlitsskyldur gagnvart löggæslunni og ákæruvaldi, lýtur einnig skipunarvaldi ráðherra.

Í þriðja lagi segir Esposito samtökin hafi fundið fyrir þeirri ásýnd fólks í vettvangsferð sinni að sterk og rótgróin tengsl séu milli íslenskra löggæsluyfirvalda og tiltekins stjórnmálaflokks og fyrir því muni vera sögulegar ástæður. „Tilfinningin er að það þyki jákvætt að vera virkur þátttakandi í þessum tiltekna flokki,“ segir Esposito og bætir við að GRECO hafi einnig orðið áskynja um þau viðhorf innan lögreglunnar að ákjósanlegt þyki fyrir frama innan löggæslunnar að hafa góð tengsl við eða vera meðlimur í viðkomandi stjórnmálaflokki.
Að lokum segir Esposito samtökin hafa fengið upplýsingar og dæmi um tilvik innan lögreglunnar, þar sem þessi hætta á pólitískum afskiptum hafi raungerst með beinum afskiptum ráðherra af störfum lögreglu.