Erlent

Dómsmálaráðherrann gæti sagt af sér ef Trump rekur umsjónarmann Rússarannsóknarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Sessions (t.v.) og Rosenstein (t.h.) hafa báðir mátt þola persónulega gagnrýni Trump undanfarna mánuði. Þó tilnefndi Trump þá báða til embætta sinna.
Sessions (t.v.) og Rosenstein (t.h.) hafa báðir mátt þola persónulega gagnrýni Trump undanfarna mánuði. Þó tilnefndi Trump þá báða til embætta sinna. Vísir/AFP
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt embættismönnum í Hvíta húsinu að hann gæti sagt af sér af Donald Trump forseti rekur næstráðanda sinn sem hefur umsjón með Rússarannsókninni svonefndu.

Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherrann, hefur umsjón með rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda ráðuneytisins, á því hvort að forsetaframboð Trump hafi átt samráð við stjórnvöld í Kreml fyrir kosningarnar árið 2016. Það féll í hans skaut eftir að Sessions lýsti sig vanhæfan til þess vegna starfa sinna fyrir framboðið í fyrra.

Trump hefur ítrekað beint reiði sinni að rannsókninni og Rosenstein sérstaklega. Vangaveltur hafa lengi verið um að forsetinn muni annað hvort reka Mueller eða Rosenstein.

Nú segir Washington Post að Sessions hafi sagt Donald McGahn, lögmanni Hvíta hússins, að hann gæti fylgt Rosenstein út um dyr dómsmálaráðuneytisins ef Trump ákvæði að reka aðstoðardómsmálaráðherrann. Það gerði hann í símtali um síðustu helgi þegar Trump hafði verið rasandi yfir húsleit hjá Michael Cohen, lögmanni sínum. Rosenstein veitti alríkislögreglunni FBI heimild til að ráðast í húsleitirnar.

Einn heimildarmanna blaðsins segir að ætlun Sessions hafi ekki verið að hóta Hvíta húsinu heldur að leggja áherslu á að brottrekstur Rosenstein setti hann í ómögulega stöðu. Annar segir að Sessions hafi mislíkað hvernig Trump hefur komið fram við Rosenstein undanfarna mánuði.


Tengdar fréttir

Trump reyndi aftur að reka Mueller í desember

Aðstoðarmenn Bandaríkjaforseta óttast að hann noti húsleitir FBI hjá lögmanni sínum sem átyllu til að reka Robert Mueller, yfirmann Rússarannsóknarinnar.

Trump ræðst á alla nema Rússa

Í fjölda tísta sem sneru að mestu að Rússarannsókninni svokölluðu og innihéldu margar villur var þó einn aðili sem slapp við alla gagnrýni. Vladimir Putin, forseti Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×