Erlent

AT&T segir það stór mistök að hafa ráðið lögmann Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Cohen virðist hafa reynt að hagnast á tengslum sínum við Trump forseta strax eftir að hann tók við embætti í fyrra.
Cohen virðist hafa reynt að hagnast á tengslum sínum við Trump forseta strax eftir að hann tók við embætti í fyrra. Vísir/AFP
Ráðning AT&T á Michael Cohen, persónulegum lögmanni Donalds Trump Bandaríkjaforseta, var „alvarlegur dómgreindarbrestur“ að sögn forstjóra fjarskiptarisans. Fyrirtækið réði Cohen meðal annars til að ráðleggja því í tengslum við risasamruna við Time Warner.

Greint hefur verið frá greiðslum stórfyrirtækja eins og AT&T til skúffufélags í eigu Cohen í vikunni. Fyrirtækin voru á höttunum eftir innsýn í nýja ríkisstjórn Trump þar sem þau áttu mikið undir ákvörðunum bandarískra yfirvalda.

Washington Post sagði frá því í gær að í samningi sem AT&T gerði við Cohen fljótlega eftir að Trump sór embættiseið í janúar í fyrra hafi verið kveðið á um að lögmaðurinn veitti ráð í tengslum við fyrirhugaðan samruna við Time Warner. Ríkisstjórn Trump hefur síðan lagst gegn samrunanum.

Í tölvupósti til starfsmanna segir Randall Stephenson, forstjóri AT&T, að það hafi verið rangt að sækjast eftir ráðgjöf frá persónulegum lögmanni Trump.

„Það er engin önnur leið til að segja það — ráðning AT&T á Michael Cohen sem pólitískum ráðgjafa var stór mistök,“ segir Stephenson í póstinum, að sögn Washington Post.

Segir Cohen hafa boðið fyrirtækinu ráðgjöfina

Cohen fékk 600.000 dollara frá þessu stærsta fjarskiptafyrirtæki heims. AT&T segist hafa veitt Robert Mueller, sérstökum rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, upplýsingar um greiðslurnar. Sömu sögu segir svissneska lyfjafyrirtækið Novartis sem réði Cohen einnig sem ráðgjafa.

Stephenson fullyrti í póstinum til starfsmanna að fyrirtækið hefði farið að lögum og reglum. Alvanalegt væri að fyrirtæki réðu pólitíska ráðgjafa við stjórnarskipti. Í tilfelli Cohen hefði fyrirtækið hins vegar ekki hugað nægilega að bakgrunni hans.

Þá segir forstjórinn að það hafi verið Cohen sem hafi boðið fyrirtækinu upplýsingar um „lykilleikmenn, forgangsmál þeirra og hugsunarhátt“ að fyrra bragði.

Greiðslurnar frá AT&T og Novartis fóru til skúffufyrirtækisins Essential Consultants. Það er sama félag og Cohen notaði til þess að greiða Stephanie Clifford, klámmyndaleikkonu sem er þekkt undir sviðsnafninu Stormy Daniels, 130.000 dollara fyrir að þegja um meint kynferðislegt samband hennar við Trump rétt fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Rudy Giuliani, lögmaður Trump, neitar því að Trump hafi vitað um ráðgjafarstörf Cohen.

Cohen er nú til alríkisrannsóknar vegna mögulegra fjársvika. Húsleitir voru gerðir á skrifstofu hans, íbúð og hótelherbergi í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×