Innlent

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar hélt velli í fyrsta sinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hilda Jana Gísladóttir.
Hilda Jana Gísladóttir.
„Ég held að niðurstaðan sé að segja okkur það að Akureyringar séu tiltölulega sáttir við meirihlutann og þess vegna sé eðlilegt að vinna áfram saman,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri.

Allir þrír flokkarnir sem mynduðu meirihluta á síðasta kjörtímabili, það er L-listinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn, fengu tvo menn kjörna hver af ellefu mönnum í bæjarstjórninni. Það þýðir að meirihlutinn heldur velli og er það í fyrsta sinn sem það gerist á Akureyri.

Fulltrúar flokkanna þriggja hittust í gær til að fara yfir málin og er Hilda Jana bjartsýn á stöðuna. Fundað verður áfram í dag.

„Ef maður skoðar stefnu flokkanna frá því í kosningunum þá get ég ekki séð á neinu að það ættu að vera einhver stór mál sem myndu stoppa. Ég sé ekki hvar það ætti að vera,“ segir Hilda Jana.

Það liggur þó fyrir að meirihlutinn þarf að ráða sér nýjan bæjarstjóra, því Eiríkur Björn Björgvinsson, sem var ráðinn bæjarstjóri eftir síðustu kosningar, hefur tilkynnt að hann ætli að hætta í starfi sínu.

„Við höfum talað um að við vildum auglýsa starfið,“ segir Hilda Jana um næsta bæjarstjóra, en bætir jafnframt við að engar ákvarðanir hafi verið teknar um málið.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×