Skoðun

Vinstrimenn kaupa villu

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Skandall mikill skekur nú þjóðfélagið hér á Spáni. Fjölmiðlar þreytast ekki á að fjölyrða um það og að safna saman álitsgjöfum sem hneykslast í kór yfir óhæfu þeirri sem hrærir hug manna.

Þannig er mál með vexti að hjónakornin Pablo Iglesias og Irene Montero keyptu sér villu en hann er formaður vinstriflokksins Podemos (Við getum) og hún þingmaður sama flokks. Húsakosturinn kostar þau tæpar 76 milljónir króna en slík kaup eiga ekki að vera á vinstrimanna færi. Hefur upphlaup þetta neytt þau til að kalla eftir áliti frá flokksbræðrum og -systrum um það hvort þau meti það svo að hjónakornunum beri að segja af sér.

Það er vissulega nokkuð ósamræmi í því að þau sem einna mest tali gegn ójöfnuði hér syðra skuli flytja í hverfi þar sem efsta lagið í ójöfnuðinum býr. En það leynist líka firring í fjaðrafokinu.

Fyrir nokkrum árum kom í ljós svart bókhald Lýðflokksins og leynireikningur í Sviss sem innihélt um sex og hálfan milljarð króna. Það voru samantekin ráð athafna- og stjórnmálamanna sem gerði þeim kleift að moka þessu úr almannasjóðum. Forsætisráðherrann, Mariano Rajoy, naut góðs af en hann fékk að minnsta kosti upphæð sem jafnast á við hálfvirði villunnar þeirra Pablo og Irene fyrir þátttöku sína í leynibraskinu. Þetta eru þó bara smámunir því ef talin eru helstu spillingarmál flokksins telst mér til að þau hafi kostað þjóðina um hundrað þúsund milljón evrur. Þetta kom í ljós eftir að lögmaðurinn Baltazar Garzón hóf rannsókn. Hann hefur nú verið sviptur lögmannsréttindum á Spáni. Frá því þessi kurl komu til grafar hefur Lýðflokkurinn unnið tvennar þingkosningar.

En nú fyrst er þetta komið í óefni þegar vinstrimenn kaupa villu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×