„Kerfið hefur ekki verið að virka, við höfum ekki áhuga á að ganga inn í óbreyttan meirihluta um stefnu sem við gagnrýnum harðlega. Hlutverk mitt eftir kosningar fannst mér vera að heyra í félögum mínum í flokknum. Ekki að fara strax í samningaviðræður um málefni okkar. Við erum ekki hefðbundinn flokkur, við erum hreyfing. Við erum í baráttu með láglaunafólki, eftirlaunafólki, innflytjendum, öryrkjum og öðrum valdalausum hópum í borginni,“ segir Sanna sem segist aldrei hafa ætlað sér að fara strax eftir kosningar í að semja um baráttumálin. „Það er ekkert að semja um. Baráttumálum okkar verður ekki haggað og við erum heldur ekki peð í valdabaráttu annarra flokka. Við ætlum okkur að að byggja upp hagsmunabaráttuna,“ segir Sanna. Hún ætlar að tala við fólk í flokknum og annað valdalaust fólk og leggja áherslu á að byggja upp fjöldahreyfingu með því og mynda breiða samstöðu allra kúgaðra hópa til að berjast fyrir hagsmunum þeirra. „Ég ætla mér að verða rödd þessara hópa og ég tel mig ekki hafa rétt til að hefta hana með meirihlutasamstarfi við flokka sem hafa unnið gegn hagsmunum hinna verr stæðu,“ segir Sanna.
Bjó fyrstu árin í London
Sanna er aðeins 26 ára gömul, fædd í maímánuði 1992. Þrátt fyrir ungan aldur ber hún með sér staðfestu og æðruleysi. Málflutningur hennar í kosningabaráttunni vakti athygli. Hún uppskar nokkuð óvænt fylgi. Að minnsta kosti hafði skoðanakönnunum ekki tekist að mæla vaxandi fylgi við Sósíalistaflokkinn nokkrum dögum fyrir kosningar.„Ég er fædd í Reykjavík. Þetta var mjög löng og erfið fæðing. Ég er fyrsta og eina barn móður minnar. Pabbi minn er frá Tansaníu. Þau kynntust í Englandi þar sem mamma stundaði nám í förðun,“ segir Sanna frá.
„Foreldrar mínir áttu í slitróttu og erfiðu sambandi. Pabbi minn glímir við mikinn hegðunarvanda. Þá og nú. Hann kom illa fram. Það er hluti af okkar sögu en við mamma erum svolítið einar á báti. Við erum tvær í teymi,“ segir Sanna og brosir.
Lokaði á samskipti við föður sinn
„Mamma flaug með mig út til London nokkurra vikna gamla, þar sem pabbi minn býr og þrátt fyrir að samband foreldra minna hafi varað stutt, enduðum við með að búa þar áfram. Við fluttum ekki heim til Íslands fyrr en árið 1999. Þá er ég sjö ára gömul. Mamma reyndi sitt besta og reyndi að ýta undir samskipti á milli okkar. En það gekk ekki vel. Hann hvarf oft í langan tíma. Ég fékk seinna að heyra að á þessum tíma hefði hann verið í fíkniefnaneyslu. Á tímabili dvöldum við í athvarfi í London. Það var reyndar stuttur tími en lýsir því kannski að lífið var ekki alltaf auðvelt. Mamma þurfti til dæmis einu sinni að kalla til lögreglu til að ná mér út af heimili hans. Þá vildi hann ekki skila mér aftur til hennar.Þessi hegðunarvandi sem hann glímir við gerir öll samskipti erfið. Hann stóð sig ekki í föðurhlutverkinu en var samt yfirlýsingaglaður um ást sína á mér og kannski að deila myndum af mér á Facebook. Á sama tíma og hann var í engum raunverulegum samskiptum við mig,“ segir Sanna og segir nokkuð erfitt að lýsa samskiptunum. Hún viti þó að margir séu í sömu sporum og hún. Það reyndist henni vel að loka á samskipti við hann.
„Föðurfjölskylda mín er mér góð. Pabbi á tvíburasystur og aðra systur sem eiga börn á mínum aldri. Við mamma tengdumst þeim mjög vel. Þau búa flest í Lewisham,“ segir Sanna.
Talaði ekki íslensku
Hún vildi alls ekki flytja til Íslands.„Afi minn var mjög veikur á þessum tíma og það leit illa út þá. Það rættist reyndar úr því og hann átti eftir að lifa í mörg ár eftir þessi veikindi. Mamma tilkynnti mér að við yrðum að fara til Íslands. Ég talaði ekki einu sinni íslensku. Hafði aldrei farið til Íslands. Ég man eftir miklum snjó og kulda. Við fluttum til ömmu sem bjó í Nóatúni í Reykjavík. Ég fór í nýbúadeild í Háteigsskóla og var bara fáeinar vikur að læra tungumálið. Við mæðgurnar vorum á flakki næstu árin og aðstæður okkar ótryggar. Við fluttum fimm sinnum á tæpum þremur árum.
Við vorum kannski á leigusamningi en svo vildi leigusalinn fá íbúðina aftur. Mamma var í næstum því þrjú ár á biðlista eftir félagslegri íbúð. Þegar ég var tíu ára gömul fengum við úthlutað íbúð í Vesturbergi í Efra-Breiðholti. Þetta var á miðju skólaári og ég man að mér fannst þetta óralangt í burtu frá hverfinu sem ég bjó í. En það var ekkert inni í myndinni annað en að sætta sig við þetta nýja líf,“ segir Sanna sem kláraði skólaárið í Háteigsskóla.
Með kommóðu í strætó
„Við mamma tókum sama strætó á hverjum morgni, ég fór í skólann og hún í vinnuna. Svo tók ég oft strætó ein heim upp í Breiðholt. Mér finnst stundum skrýtið að hugsa til þess að ég hafi verið svona mikið ein á ferð um borgina. En mamma var að vinna á Nóaborg og stundum fór ég til hennar. Mér finnst fínt að vera með sjálfri mér. Gott að vera ein, kannski er það vegna þess hvað ég var mikið ein þegar ég var yngri. Stundum vann mamma miklu meira og þá kom barnapía sem setti mig í háttinn. Þá sá ég hana ekki nema á morgnana og um helgar.Ég vissi að við vorum ekki eins og flestir þó að þeir vinir mínir sem áttu einstæða foreldra ættu sumt sameiginlegt með mér,“ segir Sanna og segir það hafa runnið upp fyrir henni eftir því sem hún eltist. „Ég fór kannski í mat til vinkonu minnar og fékk að borða hjá þeim. Þá fannst mér magnað hvað var til mikið af fallegum diskum, sem voru allir í stíl. Og glösum líka. Fín hnífapör og alls konar krydd til. Uppáhaldsglasið mitt var blátt glas úr útsöluhorni Ikea, það kostaði líklega hundrað kall. Ég var miður mín þegar það brotnaði. Hélt mikið upp á það. Við áttum plastdiska í alls konar litum, þeir voru hvaðanæva að. Eiginlega allt sem við áttum höfðum við fengið gefins. Við tókum einu sinni litla kommóðu með okkur í strætó, við höfðum séð hana auglýsta gefins á stoppistöðinni. Báðum svo strætóbílstjórann vinsamlega um að fá að flytja hana með okkur í strætó,“ segir Sanna frá.
Stendur með mömmu
Sanna byrjaði ung að vinna við blaðaútburð, með aðstoð móður sinnar. „Ég vaknaði eldsnemma og bar út blöðin. Sat svo við eldhúsborðið og las þau þangað til ég átti að fara í skólann. Það tók því ekki að fara að sofa aftur. Mamma hafði unnið svo mikið í láglaunastörfum að það myndaði gríðarlegt álag á hana. Núna er hún á örorkubótum. Fátæktin bugaði hana andlega. Hún var farin að fá alvarleg kvíðaköst sem hún glímir við enn þann dag í dag. Hún heldur þá oft að hún sé að deyja. Ég hef þurft að hringja á sjúkrabíl, þegar ég gat ekki róað hana. Ég hef farið með hana á bráðamóttökuna en þar er manni bara bandað burt. Mætir algjöru skilningsleysi. Sagt að reyna hina eða þessa deildina daginn eftir. Þó að maður reyni að segja eins skýrt og hægt er: En hún er veik núna!Mamma veiktist eitt sinn alvarlega, fékk gallsteinakast. Alúðin og umhyggjan sem henni var sýnd var algjör. Alltaf verið að tékka á henni. En þegar um er að ræða aðsteðjandi andleg veikindi þá er fólki bægt frá. Mamma er í raun mjög sterk kona sem vill ekki valda mér áhyggjum. En við stöndum saman, erum gott teymi og algjörar samlokur.“
Sanna lagði hart að sér í skóla. „Ég veit ekki hvort það er vegna þessa samfélagslega áróðurs um að maður verði að mennta sig til þess að það verði eitthvað úr manni. Til að maður verði ekki fátækur. En þetta er lygi. Fátækt er ekki persónulegur vandi hinna fátæku. Fátækt er samfélagslegt mein, afleiðing kapítalismans, sem hin fátæku verða undir. Þau bera ekki ábyrgð á fátæktinni. Og þótt ég sleppi þá hverfur fátæktin ekki. Enginn ætti að þurfa að vera fátækur. Hvað ef enginn myndi skúra eða þrífa? Hvað ef verkamennina vantaði? Ég myndi miklu frekar sakna þeirra framlags en einhverra millistjórnenda í banka,“ segir Sanna.
Sanna Magdalena Mörtudóttur segist ekki vilja gleyma bakgrunni sínum og tapa sér í hringiðu stjórnmálanna. Kerfið virki ekki fyrir þá sem verst standa. Hún þjóni því fólki sem kaus hana betur með því að standa utan meirihlutans í Reykjavík.
„Ég kláraði Fellaskóla, fór þaðan í Fjölbrautaskólann við Ármúla sem mér fannst fínn skóli. Ég kláraði hann á undan áætlun og fór í Háskóla Íslands nítján ára gömul. Mér sóttist námið einnig vel í Háskólanum og lærði mannfræði. Ég sótti um mastersnám áður en ég kláraði BA-gráðuna. Þetta var alls ekki auðvelt, ég vann með skóla. Vann á veitingastaðnum Serrano og á Nam, svo var ég aðstoðarkennari í háskólanum með námi. Þegar námið fór að þyngjast og ég vann ekki mikið, sótti ég um námslán. Námslánin voru um 500 þúsund krónur á önn. Leigan var 100 þúsund krónur á mánuði og húsaleigubætur um 30 þúsund krónur. Það sér það hver maður að þetta gengur ekki upp. Ég ákvað að ég skyldi mennta mig, sama hvað það kostaði. Það er ekki hægt að taka menntunina af mér. Ég tók lán hjá Framtíðinni, yfirdráttarheimild og notaði VISA. Þeir fátæku verða enn fátækari á leið sinni í gegnum kerfið. Það er nefnilega ekki náttúrulögmál eða fólki sjálfu að kenna að það er fátækt. Þetta er kerfisbundið óréttlæti. Og allt annað misrétti er það líka.“
Efldist við að opna sig
Málflutningur Sönnu í yfirstaðinni kosningabaráttu vakti athygli. Hún þótti rökföst og sýna öryggi.„Þannig hefur það ekki alltaf verið. Ég var alltaf frekar baka til í grunn- og framhaldsskóla. Hugsaði mitt en hef ekki lagt mikið til málanna. Hjartað fór á milljón ef ég þurfti að kynna ritgerð eða eitthvað slíkt í skóla. Ég efldist í námi og þegar ég byrjaði að tala opinberlega um fátækt, um aðstæður mínar og það að vera brúnn Íslendingur.“
Sanna segir mannfræðinámið afar gagnlegan undirbúning undir þátttöku í stjórnmálum. Eða hvers kyns starf sem krefst gagnrýninnar hugsunar. Viðfangsefni hennar hafa verið menningarpólitísk. „BA-ritgerðin mín fjallaði um hugtakið „negri“, en ég hef ekki upplifað mikið af beinum fordómum í mínu lífi, miklu frekar kynþáttahyggju. Eitt sinn var ég á leið heim úr skóla og þá kallaði strákur á eftir mér: Hei, negri, ég skeit á þig áðan. Þetta hefur alltaf setið í mér. Ég var mikið að pæla í þessu orði. Í ritgerðinni fór ég sögulega í hugtakið, hvernig það er sett fram. Þetta er niðrandi hugtak en svo heyrist það í rappheiminum í annarri mynd; nigga en ekki nigger. Af hverju? Ég komst að þeirri niðurstöðu að þar felst í hugtakinu valdefling. Svartir einstaklingar taka orðið upp í sinni mynd, nota það sín á milli, taka það yfir og fjarlæga þar með kveikinn úr „sprengjunni“ sem þessu hugtaki fylgir.
Mér finnst þetta erfitt orð en skil samt hipphopp-senuna. Svo skoðaði ég hugtakið og notkun þess á Norðurlöndum. Af því að þrælahald á einstaklingum frá Afríku fór ekki fram hér, þá finnst fólki stundum saklaust að nota orðið hér. Ég nefni sem dæmi endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negrastrákar árið 2007. Og svo sælgætið; Negrakossar. Fólk réttlætir orðanotkunina. En okkur sem erum dökk finnst það niðrandi og finnst ekki í lagi að nota það. Það er ekki hægt að aðskilja hugtakanotkunina frá sögulega niðrandi merkingu þess.
Í meistararitgerðinni skoðaði ég upplifun Íslendinga af blönduðum uppruna. Hvernig þeim finnst þeir tilheyra íslensku samfélagi. Hvernig þeim fannst þau standa út úr vegna litaraftsins.“
Sanna kveður, hún er á leiðinni á fund. Hún leggur samt áherslu á að Sósíalistaflokkurinn sé svolítið öðruvísi en flestir.
„Já, við gerum hlutina eins og við viljum. Þetta er ný staða fyrir okkur og fyrir mig persónulega, að vera komin út í þessa hringiðu. Ég vil ekki tapa mér í hringiðunni. Ég vil ekki ganga út úr Ráðhúsi Reykjavíkur eftir fjögur ár sem tamin millistéttarkona í dragt. Ég vil ekki gleyma því hvaðan ég kom, hvorki úr fátæktinni né úr sósíalískri baráttu. Ég er kona í baráttu og get afkastað sem mestu þegar fjöldinn er með í þeirri baráttu. Um það snýst sósíalisminn. Við trúum á afl fjöldans en ekki afl leiðtogans. Ég vonast til að geta notað þessa stöðu til að þjóna baráttu hinna valdalausu. Aðeins þannig get ég gert eitthvað til góðs.“