Innlent

Meiri­hluti þjóðarinnar telur lands­liðið lík­legt til að komast upp úr riðlinum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hörður Björgvin Magnússon er hér í baráttu við Salvio í leiknum gegn Argentínu á laugardaginn.
Hörður Björgvin Magnússon er hér í baráttu við Salvio í leiknum gegn Argentínu á laugardaginn. vísir/vilhelm
Meirihluti þjóðarinnar telur íslenska landsliðið líklegt til að komast upp úr D-riðli á HM í Rússlandi ef marka má nýja könnun MMR.

Í tilkynningu frá MMR segir að könnunin hafi verið framkvæmd 12. til 18. júní 2018. Heildarfjöldi svarenda var 925 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Spurt var: „Hversu langt heldur þú að íslenska landsliðið í knattspyrnu nái á HM í Rússlandi?“  og voru svarmöguleikarnir: „Kemst ekki upp úr riðlinum“, „Kemst í 16 liða úrslit“, „Kemst í 8 liða úrslit“, „Kemst í undanúrslit“, „Kemst í úrslitaleikinn“, „Vinnur keppnina“, „Veit ekki/ vil ekki svara“. Samtals tóku 86,6 prósent afstöðu til spurningarinnar.

59 prósent töldu landsliðið líklegt til að komast upp úr riðlakeppninni og þar af töldu tæp 19 prósent að liðið komist á átta liða úrslit eða lengra.

Konur, eða 67 prósent þeirra, voru líklegri til að telja að liðið kæmist upp úr riðlinum heldur en karlar en 52 prósent þeirra töldu svo vera.

Svarendur á aldrinum 18-29 ára (66%) og 68 ára og eldri (69%) voru líklegastir til að spá Íslandi áfram í 16 liða úrslit eða lengra. Þá fór bjartsýni minnkandi með aukinni menntun og heimilistekjum.

Stuðningsfólk Miðflokks (79%) var líklegast til að telja að Ísland kæmist áfram úr riðlakeppninni. Þá var stuðningsfólk Flokks fólksins (7%) líklegast allra til að spá strákunum okkar sigri í keppninni.


Tengdar fréttir

Sumarmessan: Kokkurinn þakkaði Messi fyrir leikinn

Íslenska landsliðið er með kokk á vegum KSÍ sem sér um að elda ofan í strákana á HM í Rússlandi. Kokkurinn, Hinrik Ingi Guðbjargarson, beið hins vegar ekkert í eldhúsinu á meðan Ísland spilaði við Argentínu heldur var mættur inn á völlinn og tók í hendina á Messi eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×