Innlent

Hleður íslenska landsliðið lofi og segir það fyrirmynd minni þjóða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kunnugleg sjón úr leiknum í gær.
Kunnugleg sjón úr leiknum í gær. Vísir/Vilhelm
„Lúxemborg, Malta, Hong Kong, Skotland og aðrar svipaðar þjóðir, eru þið að fylgjast með? Vegna þess að þetta var enginn heppni.“

Þetta skrifar pistlahöfundurinn John Leicester í pistli sem birtist á vef fréttaveitunnar Associated Press eftir leik Íslands og Argentínu á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Hann hleður íslenska landsliðið lofi í pistlinum og segir Ísland vera fyrirmynd annarra minni þjóða í heimsboltanum.

„Með því að núlla út tvöfalda heimsmeistara Argentínu, sem var með Messi á vellinum og vindlareykjandi Diego Maradona í VIP-stúkunni og með Páfann sér við hlið ruddi Ísland brautina fyrir minni þjóðir og landsvæði hvarvetna í heiminum,“ skrifar Leiceister.

Í pistlinum fer Leiceister yfir jafnteflið í gær og kunnuglegar sögur um hverjar séu ástæður fyrir árangri Íslands á knattspyrnuvellinum. Margir hæfir þjálfarar, fullt af gervigrasvöllum og fleira í þeim dúr. En hann segir einnig að íslenska landsliðið sé ekki „krúttleg saga“ heldur sé það orðið að einhverju mun meira.

„Þetta lið er bara að verða betra og betra, ekki lengur krúttleg saga af dugnaðarforkum sem ná meiri árangri en hægt er að krefja þá um, heldur hreinræktað lið sem þarf að taka tillit til. Og það er orðið verulega gott í því að taka stærstu nöfnin í fótboltanum og lækka í þeim rostann,“ skrifar Leiceister.

Minnist hann á jafntefli Íslands og Portúgals í opnunarleik EM árið 2016 þar sem Cristiano Ronaldo fékk að kenna á landsliðinu.

„Og nú var Messi síðasta stjarnan sem Ísland slökkti í með sterkum íslenskum varnarleik, styrkleika, skipulagningu, liðsanda og sjálfsfórn,“ skrifar Leiceister áður en hann færir sig yfir í lokaorðin.

„Ísland. Vá. Króatía og Nígería, hin liðin í D-riðli, passið ykkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×