Innlent

„Maður er að fá fiðringinn núna“

Kolbeinn Tumi Daðason í Moskvu skrifar
Kristbjörg er með tengdaforeldrunum í Moskvu.
Kristbjörg er með tengdaforeldrunum í Moskvu. Vísir/KTD
„Maður er bara rétt að detta í gírinn, maður er að fá fiðringinn núna loksins,“ segir Kristbjörg Jónasdóttir, eiginkona landsliðsfyrirliðans Arons Einar Gunnarssonar.

Kristbjörg er nýkominn til Moskvu fyrir leik Íslands og Argentínu í dag og spjallaði hún stuttlega við blaðamann í Zaryadye-garðinum í hjarta rússnesku höfuðborgarinnar þar sem Íslendingar hituðu rækilega upp fyrir leikinn á eftir. Þar var hún á ferðinni ásamt tengdaforeldrunum, Gunnari Malmquist og Jónu Emilíu Arnórsdóttur, foreldrum Arons Einar sem munu að sjálfsögðu styðja sinn mann.

Segir Kristbjörg að hún sé að upplifa tilfinningarússíbana í aðdraganda leiksins.

„Ég er bara blanda af öllu. Ég veit ekkert hvaða tilfinningar ég er með en aðallega er ég spennt. Þetta verður ógeðslega gaman,“ segir Kristbjörg.

Eiginmaður hennar hefur vaðið bæði eld og brennistein til þess að vera klár í slaginn en óttast var um að Aron Einar myndi missa af HM vegna meiðsla sem hann hlaut í leik með Cardiff seint í apríl. Hann er þó tilbúinn til þess að leiða liðið út á Spartak-vellinum í Moskvu á eftir.

„Hann er búinn að gera allt sem að hægt er að gera til að vera tilbúinn. Hann á það svo sannarlega skilið að vera með,“ segir Kristbjörg.

En hvernig fer leikurinn?

„Ég ætla að vera extra-bjartsýn og segja að Ísland vinni 1-0. Við eigum eftir að skora úr föstu leikatriði. Við pökkum bara í vörn og þetta verður geðveikt.“


Tengdar fréttir

Íslenskir strákar stórstjörnur í Moskvu

Fyrsta daginn vorum við ekki í treyjunum og þá var öllum sama um okkur. Daginn eftir fórum við í treyjurnar og þá vildu allir fá að taka mynd af okkur, bara hú,hú,hú, segir Andri Þór Þrastarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×