Innlent

Borgarstjórinn í Moskvu gefur grænt ljós á Íslendingapartý

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Upphitunin fer fram í Zaryadye-garðinum í hjarta miðborgarinnar, rétt við Rauða torgið og Kreml.
Upphitunin fer fram í Zaryadye-garðinum í hjarta miðborgarinnar, rétt við Rauða torgið og Kreml. Wiki Commons
Það má búast við rafmagnaðri stemningu þegar sendiráð Íslands í Moskvu, Íslandsstofa og Tólfan bjóða stuðningsfólki íslenska landsliðsins, sem og gestum og gangandi, til upphitunar fyrir leik Íslands og Argentínu laugardaginn 16. júní. Þar hitar Tólfan, stuðningsmannafélag íslensku landsliðanna, upp fyrir leikinn með víkingaklappinu víðfræga.

Auk þess stíga á svið tónlistarmennirnir og bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þar sem hið opinbera stuðningsmannasvæði („Fan Fest“) er í töluverðri fjarlægð frá Spartak-leikvanginum þar sem leikurinn fer fram, fékk sendiráðið sérstakt leyfi borgarstjórans í Moskvu til að skapa alvöru íslenska stuðningshátíð í miðborginni.

Upphitunin fyrir þennan sögulega leik fer því fram í Zaryadye-garðinum í hjarta miðborgarinnar, rétt við Rauða torgið og Kreml. Gleðin hefst klukkan ellefu og stendur í tvær klukkustundir.

Leggja tímanlega af stað á völlinn

Afar auðvelt er að komast í Zarayadye-garðinn þar sem flestar neðanjarðarlestarlínur borgarinnar stoppa í grennd við hann.

Um klukkan eitt þurfa þeir sem ætla á völlinn að leggja af stað enda er mælt er með því að mæta þangað ekki seinna en tveimur tímum fyrir leik. Það er bæði öruggast og fljótlegast að taka neðanjarðarlest en leikurinn hefst klukkan fjögur.

Frá Kitay Gorod-stöðinni, sem er í um fimm mínútna fjarlægð frá Zarayadye-garðinum, er hægt að taka línu númer 7 beint á Spartak-leikvanginn og tekur ferðin rúmlega hálftíma að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×