Innlent

Telur varhugavert að aðrir en ljósmæður sinni mæðravernd

Sveinn Arnarsson skrifar
Samningalota ljósmæðra við ríkið hefur nú tekið sem samsvarar meðal meðgöngutíma kvenna.
Samningalota ljósmæðra við ríkið hefur nú tekið sem samsvarar meðal meðgöngutíma kvenna. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Kvíði fyrir fæðingu er sjálfstæður áhættuþáttur verðandi mæðra og hvers kyns kvíði og álag sem konur eru undir rétt fyrir fæðingu getur þýtt frekari inngrip í fæðingunni sjálfri. Einnig skiptir miklu máli að ljósmæður sjái um fræðslu og umönnun á meðgöngu. Þetta segir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í heilsufélagsfræði við Háskóla Íslands.

Betri líðan á meðgöngu

Ljósmæðrastýrð þjónusta á meðgöngu og í fæðingu er betri fyrir hina verðandi móður en þjónusta sem stýrt er af lækni. Því er mikilvægt að þjónustu við verðandi mæður sé stýrt af ljósmæðrum og óæskilegt að aðrar heilbrigðisstéttir, svo sem læknar, stýri henni.

„Það hefur komið í ljós í rannsóknum að þjónusta, sem stýrt er af ljósmæðrum á meðgöngu og í fæðingu, hefur jákvæð áhrif á bæði fæðingarþyngd barna og nýbura- og ungbarnadauða. Einnig skiptir þessi þjónusta miklu máli fyrir heilsu móður, líðan hennar á meðgöngu, brjóstagjöf og möguleg inngrip í fæðingu,“ segir Rúnar.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í heilsufélagsfræði.Vísir

Varar við hættumerkjum

„Það er mikilvægt fyrir hina verðandi móður að hún upplifi og skynji öryggi þegar kemur að þjónustunni. Ef það verður skortur á ljósmæðrum og aðrir heilbrigðisstarfsmenn fara að sinna þessum störfum á meðgöngu, þá geta verið þar ákveðin hættumerki út frá rannsóknum,“ heldur Rúnar áfram.

Á annan tug ljósmæðra hafa sagt upp störfum vegna bágra kjara og hefur vantað ljósmæður á allar vaktir á Landspítalanum síðan þær gengu út í lok síðasta mánaðar. Enn er ósamið í deilu ljósmæðra og ríkisins og hefur samningalotan nú staðið yfir í um 40 vikur, eða sem nemur meðalmeðgöngutíma móður.

„Styrkur ljósmæðra felst í nokkrum þáttum og að æskilegt sé að ljósmóðir sé virkur hluti af þjónustu við mæður og fylgi konunni frá fyrstu heimsókn til fæðingar. Það hefur áhrif á næringu ungbarna, brjóstagjöf og andlega heilsu móður. Styrkurinn felst einmitt í þessari skjólstæðingafræðslu,“ bætir Rúnar við


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×