„Vinnuveitendur geta í raun og veru ráðið því hvaða menn þeir ráða til starfa. Þannig að því miður er það alltof algengt að það séu einhverjir ráðnir til starfsins sem hafa ekki til þess undirbúning, reynslu og þekkingu sem þarf til að sinna því vel,“ segir Indriði. „Þetta sést einnig í sérhæfðum störfum eins og jöklaleiðsögn, þar sem fyrirfinnst fólk sem ekki hefur hlotið til þess þjálfun. Þetta er bæði öryggisatriði og -mál og við í stjórninni höfum miklar áhyggjur, enda má rekja óhöpp til þess að ekki hafi verið nægilega vel að verki staðið.“
Skipulagðar ferðir hafa færst mjög í aukana, en ferðamenn hér á landi hafa aldrei verið fleiri. Indriði segir að erlend ferðaþjónustufyrirtæki hafi sprottið hér hratt upp og að þar sé víða pottur brotinn. „Erlendir aðilar hafa verið að koma hingað í vaxandi mæli; stundum með eigin bílaflota og með eigin erlenda starfsmenn. Þeir eru yfirleitt ekki með neinn þann undirbúning sem er nauðsynlegur,“ segir hann og bætir við að félagið hafi ítrekað bent stjórnvöldum á alvöru málsins og kallað eftir lögverndun starfsheitisins – en ekki haft erindi sem erfiði. Þekkingarlausum leiðsögumönnum fjölgi þannig stöðugt.

Sú skylda nái til íslenskra jafnt sem erlendra aðila. „Ferðamálastofa hefur heimild til að leggja dagsektir á þá sem ekki framfylgja henni. Þarna verður því um að ræða ákveðið verkfæri til viðbótar þeim sem þegar hafa verið lögfest í þeim tilgangi að allir ferðaþjónustuaðilar hér á landi sitji við sama borð.“ Þá sé löggilding ekki tímabær.
„Það sem skiptir máli er að leiðsögn um Ísland sé örugg, góð og lúti settum reglum. Ég er sem fyrr ekki sannfærð um að löggilding leiðsagnarréttinda sé eina leiðin til þess en mun á næstu vikum fara þess á leit við Félag leiðsögumanna og fleiri kunnáttuaðila að við ræðum lausnir til að ná best þeim markmiðum sem við erum öll sammála um.“