Skoðun

Dýrkeypt spaug

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Eftir verslunarmannahelgina er algengt að landsmenn hugi að daglegri rútínu og undirbúningi fyrir veturinn. Með haustverkum er því ekki fjarri lagi að huga að föstum leikatriðum sem hafa mikil áhrif á heimilisbókhald okkar allra – sveiflukónginum sjálfum, krónunni.

Enn og aftur heyrum við fréttir um fyrirtæki sem heyja erfiða rekstrarbaráttu og undantekningarlaust er bent á orsakavaldinn, styrkingu krónunnar. Óvissan innan ferðaþjónustunnar er mikil, bændur standa í kunnuglegri baráttu og litlar fiskvinnslur sem og nýsköpunarfyrirtæki eiga erfitt með fótfestu í þessu sveiflukennda umhverfi.

Þessa sögu þekkjum við öll og höfum lifað með henni. Óvissuna sem fylgir krónunni má hins vegar sjaldan ræða nema út frá þeirri forsendu einni að við Íslendingar verðum að viðhalda núverandi gjaldmiðli. Það sé okkar eini kostur. Að betra sé að stagbæta okkar örgjaldmiðil í stað þess að horfast í augu við þann gríðarlega kostnað og áhættu sem sveiflukennd krónan er fyrir heimili, launþega og fyrirtækin í landinu. En sveiflur krónunnar, ólíkt þeirri skagfirsku, eru enginn gleðigjafi. Íslenskt atvinnulíf sem og heimili eru berskjaldaðri en aðrar þjóðir með stöðuga mynt. Ef einhver alvara er í því að vinna að langtímastöðugleika er þetta atriði sem aðilar vinnumarkaðarins ættu að koma sér saman um því hugrekkið í gjaldmiðilsmálum er ekki að finna við ríkisstjórnarborðið.

Viðreisn mun halda áfram að beita sér fyrir umræðu um íslensku krónuna og hvaða aðrar leiðir eru færar í gjaldmiðilsmálum, heimilum og atvinnulífi til heilla. Það verður að vera hægt að ræða upphátt, án útúrsnúninga og heilagrar þjóðernishyggju, hvort réttlætanlegt sé að viðhalda gjaldmiðli sem þvingar almenning og fyrirtæki í óþarfa kostnað, áhættu og óvissu.

Það er ekki sanngjarnt að almenningur sitji eftir með krónuna og kostnaðinn sem henni fylgir á meðan tiltekin fyrirtæki tryggja sig með því að gera upp í erlendri mynt og hafa aðgang að ódýru erlendu fjármagni. Krónan hefur reynst okkur dýrkeypt spaug. Horfumst í augu við það.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×