Erlent

Yfirlögfræðingur Hvíta hússins lætur af störfum

Kjartan Kjartansson skrifar
McGahn er sagður hafa hótað því að segja af sér í fyrra þegar Trump vildi reka sérstaka rannsakandann.
McGahn er sagður hafa hótað því að segja af sér í fyrra þegar Trump vildi reka sérstaka rannsakandann. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að yfirlögfræðingur Hvíta hússins láti af störfum í haust þegar búið verður að staðfesta hæstaréttardómaraefni forsetans í embætti. Nýlega var greint frá því að lögfræðingurinn hefði veitt sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins umfangsmikil viðtöl.

Forsetinn tísti um brotthvarf Donalds McGahn úr starfi yfirlögfræðings Hvíta hússins í dag þrátt fyrir að aðstoðarmenn hans hafi neitað því að það væri yfirvofandi fram eftir degi. Lofaði hann störf McGahn og sagðist þakklátur fyrir þjónustu hans.

Politico segir að McGahn hafi leikið lykilhlutverk í að hjálpa Trump við að fylla alríkisdómstóla með íhaldssömum dómurum undanfarna mánuði. Trump hefur þegar fengið einn hæstaréttardómara staðfestan í embætti og annar verður að líkindum staðfestur nú í haust fyrir þingkosningar í nóvember.

Á bak við tjöldin hefur þó ýmislegt gengið á. McGahn hefur verið sagður hafa hótað því að segja af sér þegar Trump vildi reka Robert Mueller, sérstaka rannsakandann sem rannsakar meint samráð forsetaframboðs Trump við Rússa, í fyrra.

Lykilvitni um hvort Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar

Þá er stutt síðan New York Times greindi frá því að McGahn hefði sýnt rannsakendum Mueller mikla samvinnu, mun meiri en ráðamenn í Hvíta húsinu gerðu sér grein fyrir. McGahn hefði þannig rætt við rannsakendurna í um þrjátíu klukkustundir, þar á meðal um atburði þegar Trump rak James Comey, þáverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, í fyrra.

Ástæðan fyrir því hversu samvinnufús McGahn var hafi verið sú að hann hafi óttast að Trump ætlaði sér að varpa sök á hann fyrir mögulega glæpi. Þá hafi McGahn talið að hollusta yfirlögfræðings Hvíta hússins væri við embætti forsetans en ekki forsetann persónulega.

Rannsókn Mueller beinist meðal annars að því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með því að reka Comey. Forsetinn viðurkenndi sjálfur í sjónvarpsviðtali að hann hefði rekið Comey vegna Rússarannsóknarinnar svonefndu. McGahn er talinn lykilvitni þessa hluta rannsóknarinnar.

McGahn bætist nú í hóp fjölda annarra háttsettra starfsmanna Hvíta hússins og embættismanna sem hafa horfið á braut á því rúma eina og hálfa ári sem Trump hefur verið við völd. Á þeim tíma hefur Trump meðal annars tvisvar skipt um þjóðaröryggisráðgjafa, einu sinni um starfsmannastjóra og fjölda fjölmiðlafulltrúa auk þess sem utanríkisráðherrann, heilbrigðisráðherra og forstjóri Umhverfisstofnunarinna hefur horfið úr embætti.


Tengdar fréttir

Trump reyndi aftur að reka Mueller í desember

Aðstoðarmenn Bandaríkjaforseta óttast að hann noti húsleitir FBI hjá lögmanni sínum sem átyllu til að reka Robert Mueller, yfirmann Rússarannsóknarinnar.

Trump ætlaði að reka Mueller

Bandaríkjaforsetinn Donald Trump var kominn á fremsta hlunn með að reka sérstaka rannsakandann Robert Mueller, sem kannar tengsl kosningaliðs forsetans við Rússa, í júní í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×