Fótbolti

Svona virkar Þjóðadeild UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Riðlarnir í A-deildinni.
Riðlarnir í A-deildinni. Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í hópi tólf þjóða sem keppa um nýjasta bikar fótboltans sem er bikarinn fyrir sigurinn í UEFA Nations League eða Þjóðadeild UEFA. En hvernig virkar eiginlega þessi Þjóðadeild?

Helsta markmið Þjóðadeildar UEFA er að útrýma þýðingarlitlum vináttuleikjum og skipta þeim út fyrir alvöru keppnisleiki. Vináttuleikirnir heyra hér eftir sögunni til og hér eftir eiga allir landsleikir að skipta máli.

Þjóðadeildin er í raun eins og deildarkeppni í hverju öðru landi með A-deild, B-deild, C-deild og D-deild. Aðeins liðin í A-deild eiga möguleika á vinna titilinn en liðin í neðri deildunum keppast um að komast upp um deild.

Hver deild skiptist niður í fjóra riðla og fæst lið eru í A-deildinni eða tólf. Sextán lið eru í B og D-deild og fimmtán lið eru í C-deildinni.

Efstu liðin í riðlunum fjórum í A-deildinni komast í úrslitakeppnina næsta sumar þar sem verða undanúrslit og svo leikir um gull og brons.

Neðstu liðin í hverju riðli í þremur efstu deildunum verða síðan að sætta sig við fall niður í næstu deild en efstu liðin í riðlunum fjórum í þremur neðstu deildunum taka síðan þeira sæti, það er komast upp um deild.

Þessi nýja keppni á vegum Knattspyrnusambands Evrópu hefst í næsta mánuði og íslenska karlandsliðið er í hópi tólf útvaldra þjóða sem eru í A-deild og fá því tækifæri til að vinna fyrstu Þjóðadeild UEFA.

Þjóðadeildin mun fara fram á tveggja ára fresti og riðlakeppni fyrstu Þjóðadeildarinnar fer fram á næstu þremur mánuðum eða frá september til nóvember.  

Mótherjar Íslands eru Belgía og Sviss en efsta liðið í riðlinum kemst áfram í undanúrslit keppninnar sem fara fram næsta sumar.

Hér má sjá myndband frá UEFA sem útskýrir hvernig Þjóðadeild UEFA virkar og hvernig hún tengist undankeppni næsta Evrópumóts.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×