Trump sagði í dag að hann myndi hringja í Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og ræða við hann um málið. Hann sagði að Kanada gæti gengið inn í nýja samkomulagið, ef Kanadamenn yrðu „sanngjarnir“.
Því næst hótaði Trump beita frekari tollum gegn nágrönnum Bandaríkjanna í norðri og sömuleiðis að leyfa þeim ekki að koma að samkomulaginu og gera þess í stað sérstakt samkomulag við Kanada.
Trump hefur lengi kvartað undan gamla samkomulaginu, sem kallast NAFTA, og segir það hafa leitt til þess að störfum hafi fækkað í Bandaríkjunum. Fyrirtæki hafi flutt sig um set til Mexíkó þar sem laun þar séu lág.
Meðal annars snýr samkomulagið að 40 til 45 prósent hvers bíls þurfi að framleiddur af starfsmönnum sem fái minnst 16 dali á klukkustund. Er því ætlað að koma í veg fyrir að bandarískir bílaframleiðendur flytji verksmiðjur sínar til Mexíkó.
Viðræður á milli Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada hafa staðið yfir í rúmt ár og á þeim tíma hefur Trump ítrekað hótað að fella NAFTA úr gildi án nýs samnings.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Kanada sagði blaðamönnum í dag að ríkisstjórnin myndi skrifa undir samkomulag sem Kanada, og sérstaklega miðstétt landsins, hagnaðist á.