Erlent

Örlög Rosenstein ráðast á fimmtudaginn

Samúel Karl Ólason skrifar
Rod Rosenstein, varadómsmálaráðherra Bandaríkjanna, mun halda starfi sínu, allavega þar til á fimmtudaginn.
Rod Rosenstein, varadómsmálaráðherra Bandaríkjanna, mun halda starfi sínu, allavega þar til á fimmtudaginn. Vísir/AP
Rod Rosenstein, varadómsmálaráðherra Bandaríkjanna, mun halda starfi sínu, allavega þar til á fimmtudaginn. Hann mætti til fundar við John Kelly, starfsmannastjóra Hvíta Hússins, í dag og væntu fjölmiðlar þess að hann myndi annaðhvort segja af sér eða vera rekinn. Framtíð hans verður ráðin þegar hann mætir til fundar við Donald Trump, forseta, á fimmtudag.

Trump og Rosenstein töluðu saman í síma í dag en Trump er nú staddur í New York vegna aðalfundar Sameinuðu þjóðanna og snýr aftur til Washington DC á fimmtudaginn.



Rosenstein er sagður hafa verið viljugur til að segja af sér eftir að fregnir bárust af því að hann hafi lagt til í fyrra að hlera ætti forsetann. Hann ber ábyrgð á rannsókn sérstaks rannsakenda dómsmálaráðuneytisins, Roberts Mueller, á afskiptum rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum 2016, hvort framboð Trump hafi komið að afskiptunum með nokkrum hætti og aðra glæpi sem uppgötvast við rannsóknina.

Sjá einnig: Hafnar fréttum um að hann hafi unnið að því að koma Trump frá völdum



Hverfi Rosenstein á braut gæti embættismaður hliðhollur forsetanum tekið við ábyrgð á rannsókninni og jafnvel hróflað við henni. Trump hefur ítrekað gagnrýnt rannsóknina og sagt hana vera nornaveiðar. Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump, Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump, og Allen Weisselberg, fjármálastjóri Trump til margra ára, starfa nú allir með Robert Mueller í Rússarannsókninni.

Þingmenn Demókrataflokksins hafa nú kallað á nýjan leik eftir því að þingið, sem stýrt er af Repúblikanaflokknum, grípi til aðgerða og verndi Rússarannsóknina svokölluðu á þann veg að hvorki Trump, né hver sem tæki við af Rosenstein ef honum yrði vikið úr starfi eða segi af sér, geti stöðvað hana.



Rosenstein, repúblikani sem skipaður var í embætti af Trump, tók við yfirstjórn Rússarannsóknarinnar eftir að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, sagði rangt frá samskiptum sínum og Sergei Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Síðan þá hefur Trump sakað Rosenstein um vanhæfi þar sem hann skrifaði undir eftirlitsheimild gegn Carter Page, fyrrverandi starfsmann framboðs Trump, árið 2016.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×