Djöfullinn ber ábyrgð á þeim fjölmörgu kynferðisofbeldishneykslismálum sem hafa skekið kaþólsku kirkjuna. Þetta sagði Frans páfi í gær og bað kaþólikka um allan heim um að leggjast á bæn alla daga októbermánaðar til að hrekja freistarann í burtu.
„Við verðum að bjarga kirkjunni frá þeim illa, frá freistaranum. Á sama tíma þurfum við að vera meðvituð um sekt okkar, mistök og misbeitingu í nútíð og fortíð,“ hafði Reuters eftir Frans páfa.
Hneykslismál kaþólsku kirkjunnar eru mýmörg og hefur komist upp um stórfelld brot í meðal annars Bandaríkjunum og í Síle undanfarið.
