Erlent

Hvíta húsið gefur eftir en setur blaðamönnum strangar reglur

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Sarah Huckabee Sanders.
Donald Trump og Sarah Huckabee Sanders. AP/Michael Conroy
Starfsmenn Hvíta hússins gáfu út í kvöld að blaðamannapassi Jim Acosta, fréttamanns CNN, verður virkjaður á nýjan leik. Áður hafði Hvíta húsið gefið út að Acosta yrði hleypt aftur á blaðamannafundi en það yrði einungis tímabundið. Nú hefur verið fallið frá því og CNN hefur hætt málsókninni gegn Hvíta húsinu.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir hins vegar að brjóti Acosta reglur forsetabústaðarins, sem voru einnig kynntar nú í kvöld, verði passinn tekinn af honum aftur.

Þessar nýju reglur Hvíta hússins eru á þann veg að blaðamenn megi einungis spyrja einnar spurningar og er þeim einnig meinað að fylgja þeim spurningum eftir, nema fengið sé leyfi fyrir viðbótarspurningu. Brjóti blaðamenn gegn reglunum gæti þeim verið meinað að mæta á fleiri blaðamannafundi.

Vilja einhliða velsæmi

Trump sjálfur og starfsmenn hans hafa að undanförnu kallað eftir auknu velsæmi í Hvíta húsinu og hafa blaðamenn verið sakaðir um að sýna ekki nægjanlegt velsæmi.

„Við verðum að hafa velsæmi í Hvíta húsinu,“ sagði Sanders í kjölfar úrskurðar dómarans í síðustu viku.

„Velsæmi. Þú getur ekki bara spurt þriggja og fjögurra spurninga, staðið uppi og ekki setið niður. Þú verður að hafa velsæmi,“ sagði Trump sjálfur á föstudaginn.

Hann virðist þó hafa litlar áhyggjur af eigin velsæmi og þá sérstaklega með tilliti til tísti hans frá því í gær þar sem hann virtist kalla Adam Schiff, þingmann Demókrataflokksins, skít. Í tístinu breytti Trump nafni Schiff í Schitt en hann hefur lengi haft gaman af því að gefa fólki dónaleg viðurnefni.

Þá er vert að benda á atvik sem kom upp þann 9. nóvember, tveimur dögum eftir að Hvíta húsið segir að Acosta hafi brotið gegn áðurnefndum „grunngildum“. Þá var Trump spurður út í starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og hvort hann vildi að hann hefði áhrif á rannsókn Robert Mueller.

„Mikið rosalega er þetta heimskuleg spurning. Mjög heimskuleg spurning,“ sagði Trump við fréttakonuna Abby Philip. „Ég horfi þó mikið á þig og þú spyrð margra heimskulegra spurninga,“ sagði forsetinn svo og gekk frá Philip.


Tengdar fréttir

Fox News lýsir yfir stuðningi við CNN

Fox News styðjur við bakið á ákvörðun CNN að stefna Hvíta húsinu í tilraun sinni til að endurheimta blaðamannapassa Jim Acosta.

Áfangasigur CNN gegn Trump

Fréttastofan CNN hafði betur gegn Donald Trump og Hvíta húsinu fyrir dómstólum í dag þegar alríkisdómari dæmdi Hvíta húsið til þess að láta Jim Acosta, fréttamann CNN, fá aftur tímabundið aðgang að húsinu sem blaðamaður.

Hvíta húsið sakað um að dreifa breyttu myndbandi

Hvíta húsið hefur verið sakað um að dreifa myndbandi sem hefur verið breytt, til að réttlæta það að Jim Acosta, fréttamanni CNN, hafi verið meinað að mæta á fleiri blaðamannafundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×