Erlent

Tsai Ing-wen segir af sér formennsku eftir afhroð í kosningum

Andri Eysteinsson skrifar
Tsai Ing-Wen var kjörin forseti Taívan 2016, fyrst kvenna.
Tsai Ing-Wen var kjörin forseti Taívan 2016, fyrst kvenna. EPA/ David Chang
Forseti Taívan, Tsai Ing-wen, tilkynnti í gær um áætlun sína um að stíga til hliðar sem formaður DPP flokksins í landinu. Flokkur Tsai fór illa út úr kosningum í Taívan á dögunum og laut í lægra haldi víða fyrir helstu andstæðingum sínum, Kuomintang.

Kosið var í sveitastjórnarkosningum á laugardag. Víða tapaði DPP mikilvægum sætum til Kuomintang. Tsai Ing-Wen sagði í yfirlýsingu sinni að lýðræði hafi kennt DPP lexíu í kosningunum.

Tsai sagðist taka fulla ábyrgð á úrslitunum og lýsti því yfir að hún hyggist stíga til hliðar sem flokksformaður. Hún hyggst þó ekki segja af sér forsetaembættinu og ætlar að sitja út kjörtímabilið. Kjörtímabili hennar lýkur 2020.

Ekki staðið undir væntingum kjósenda

Tsai Ing-wen var kosin forseti Taívan árið 2016, fyrst kvenna. Kosningaloforð Tsai og DPP flokksins voru að koma hagkerfi Taívan af stað að nýju og fjarlægjast Kína enn frekar.

Tsai hlaut um 56% atkvæða gegn 31% Kuomintang.

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar Tsai hafa ekki borið árangur og hafa aðgerðir hennar sumar hverjar verið óvinsælar.

Á sama tíma hafa Kínverjar sóst eftir því að styrkja stöðu sína gagnvart Taívan, hernaðaræfingar hafa verið haldnar í nágrenni eyjunnar og hefur ríkisstjórn Kína unnið að því að einangra Taívan á alþjóðavettvangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×