Erlent

Krónsprins Sáda "kolklikkaður“ að mati öldungardeildarþingmanns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lindsay Graham er repúblikani og stuðningsmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
Lindsay Graham er repúblikani og stuðningsmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Getty/Alex Wong
Hópur öldungardeildarþingmanna í Bandaríkjunum segist fullviss um að Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu, tengist morðinu á blaðamanninum Jamal Kashoggi á einhvern hátt. Repúblikaninn Lindsay Graham gekk svo langt að kalla krónprinsinn „kolklikkaðan“. BBC greinir frá.

Khashoggi var einn virtasti blaðamaður Sáda en ferill hans í fjölmiðlum spannaði um þrjátíu ár. Hann var myrtur 2. október síðastliðinn á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklan, lík hans bútað niður og það síðar leyst upp, að sögn tyrkneskra yfirvalda. Ellefu hafa verið ákærðir í Sádí-Arabíu vegna málsins.

Bin Salman hefur verið bendlaður við að hafa fyrirskipað morðið eða hafa í það minnsta haft vitneskju um það. Þingmennirnir, sem eiga það sameiginlegt að sitja í utanríkismálanefnd öldungardeildarinnar, ræddu við blaðamenn í dag eftir að hafa fengið skýrslu um morðið á Khashoggi frá Gina Haspel, yfirmanni bandarísku leyniþjónustunnar CIA, fyrr í dag. Spöruðu þeir ekki stóru orðin eftir fundinn með Haspel.

Sjá einnig: CIA telur krónprinsinn á bak við morðið á Khashoggi

„Maður þarf að líta framhjá ansi mörgu til þess að komast að þeirri niðurstöðu að þetta hafi ekki verið skipulagt og stýrt af mönnum undir stjórn MBS,“ sagði Graham og notaði skammstöfun krónprinsins.

„Það er engin rjúkandi byssa en það er rjúkandi sög,“ sagði Graham einnig og vísaði þar til þess að lík blaðamannsins hafi verið bútað niður.

Öldungardeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Bob Corker var ekki í vafa um hver hafi fyrirskipað morðið og sagðist hann ekki efast um það í eina sekúndu að krónprinsinn hafi fyrirskipað það. Corker skaut einnig föstum skotum á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem ekki hefur viljað ganga svo langt að segja að bin Salman hafi fyrirskipað morðið. Sagði Corker að með því að neita að fordæma krónprinsinn væri Trump að leggja blessun sína yfir morðið á blaðamanninum.


Tengdar fréttir

Trump ætlar ekki að refsa Sádum frekar

"Kannski gerði hann það og kannski ekki,“ segir forsetinn um krónprins Sádi-Arabíu og aðkomu hans að grimmilegu morði blaðamannsins Jamal Khashoggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×