Þetta segir Karl Gauti Hjaltason en hann ásamt Ólafi Ísleifssyni voru í ítarlegu viðtali á Harmageddon nú í morgun.
Eins og Vísir hefur þegar greint frá hafa þeir félagarnir sent forseta Alþingis bréf og tilkynnt honum að þeir ætli að sitja áfram á þingi þó þeir hafi verið reknir úr Flokki fólksins í kjölfar Klaustur-skandalsins, þá sem óháðir þingmenn.
Karl Gauti var þarna að svara spurningu um óviðurkvæmileg ummæli hans sjálfs, varðandi það að Inga Sæland geti grenjað en ekki stjórnað, á hinum fræga Klaustur-fundi. Þarna er vísað til áhrifaríkrar ræðu Ingu í kosningasjónvarpi í síðustu kosningabaráttu fyrir rúmlega ári en þá klökknaði Inga þegar hún flutti áhrifamikla ræðu um stöðu fátækra á Íslandi. Er sú framganga af ýmsum talin hafa verið ákveðinn vendipunktur og jafnvel leitt til þess að Flokkur fólksins náði inn á þing. Ólafur Ísleifsson er uppbótarþingmaður í Reykjavík norður en þar féllu 2.547 atkvæði til Flokks fólksins. Karl Gauti er 8. þingmaður í Suðurkjördæmi, efsti maður á lista Flokks fólksins sem þar hreppti 2.509 atkvæði.
„Við Lilja erum persónulegir vinir og það myndi enginn tala svona um hana í viðurvist minni,“ segir Ólafur Ísleifsson.Hann, ítrekaði að það sé engum sæmandi að tala með þessum hætti og ekki síður að sitja undir svona orðræðu, það hafi verið ámælisleg mistök:
„Ég ítreka mína afsökunarbeiðni. Bið alla þá sem hallað var á afsökunar, alla þingmenn fyrrverandi og núverandi og ég bið þjóðina afsökunar. Þykir þetta afar miður og afar leitt. Þetta er harður skóli en ég mun sannarlega læra af þessu.“