Erlent

Trú CIA á aðild sádiarabíska krónprinsins styrkist

Kjartan Kjartansson skrifar
Talið er að Mohammed bin Salman krónprins hafi gefið skipun um morðið á Jamal Khashoggi.
Talið er að Mohammed bin Salman krónprins hafi gefið skipun um morðið á Jamal Khashoggi. Vísir/EPA
Njósnir bandarísku leyniþjónustunnar CIA benda til þess að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu hafi ítrekað skipst á skilaboðum við aðstoðarmann sinn um það leyti sem Jamal Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl. Trú leyniþjónustunnar á að Salman hafi skipað fyrir um morðið er sögð hafa styrkst.

Þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti og ráðherrar hans hafi fram að þessu ekki viljað kenna sádiarabískum ráðamönnum um morðið á Khashoggi, blaðamanni sem var gagnrýninn á stjórnvöld í Ríad, telur bandaríska leyniþjónustan að það hafi verið framið með fullri vitund Salman og líklega að skipun hans.

Salman og Saud al-Qahtani, ráðgjafi hans, skiptust á ellefu skilaboðum á þeim tíma sem hópur Sáda kom á ræðisskrifstofuna í Istanbúl í Tyrklandi þar sem Khashoggi var myrtur í október samkvæmt upplýsingum CIA.

Qahtani var efstur á lista þeirra Sáda sem Bandaríkjastjórn lagði refsiaðgerðir á í síðasta mánuði, að sögn New York Times. Hann er sagður á meðal nánustu ráðgjafa krónprinsins. Talið er að það hafi verið Qahtani sem var í beinum samskiptum við morðingja Khashoggi.

Þessi samskipti Salman og Qahtani eru sögð hafa gert leyniþjónustuna vissari í sinni sök um að Salman hafi skipað fyrir um morðið. Þau séu þó ekki afdráttarlaus og bein sönnun á sekt krónprinsins sem Trump forseti hefur krafist ef sannfæra á hann um það.

Salman krónprins hefur verið náinn bandamaður Trump forseta og þeir Jared Kushner, tengdasonur Trump og einn helsti ráðgjafi hans, eru sagðir miklir mátar. Bandaríkjastjórn hefur haldið fast við stuðning sinn við krónprinsinn þrátt fyrir morðið á Khashoggi sem var með dvalarleyfi í Bandaríkjunum og skrifaði pistla fyrir Washington Post.

Qahatani er sagður hafa verið sviptur ráðgjafatitli sínum við konungsfjölskylduna eftir morðið. Hann er ekki á meðal þeirra sem sádiarabísk yfirvöld hafa ákært vegna þess. Sem helsti áróðursmeistari krónprinsins er Qahatani sagður hafa tekið saman svartan lista yfir pólitíska óvini hans og skipulagt samfélagsmiðlaherferðir gegn þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×