Innlent

Umdeilt mál FH og Hafnarfjarðar komið á borð Guðmundar Inga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reisa á þriðja knatthúsið á svæði FH-inga. Málið hefur verið þrætuepli í bæjarmálum í Hafnarfirði
Reisa á þriðja knatthúsið á svæði FH-inga. Málið hefur verið þrætuepli í bæjarmálum í Hafnarfirði Fréttablaðið/GVA
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt til við forseta Íslands að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, verði settur til að taka ákvörðun um hvort hefja eigi málsmeðferð vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um framkvæmdir og kaup á mannvirkjum í Kaplakrika. Málið var á dagskrá ríkisstjórnarinnar á fundi hennar í morgun.

Málið er tvískipt. Annars vegar snýst það um fyrirhuguð kaup Hafnarfjarðar á þremur íþróttahúsum af FH í stað þess að reisa knatthús í Kaplakrika. Í staðinn myndi FH byggja, eiga og reka knatthús en bærinn kaupa íþróttahúsin á samanlagt 790 milljónir króna. 

Hins vegar snýst það um hundrað milljóna króna greiðslu úr bæjarsjóði Hafnarfjarðar til FH nokkrum dögum síðar. Um var að ræða fyrstu greiðsluna af þeim 790 milljónum sem meirihlutinn samþykkti að greiða.

Minnihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar kærði afgreiðsluna til Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins á þeirri forsendu að stjórnsýslulög hefðu verið brotin. 

Guðlaug Svala Steinunn Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans, sagði við það tækifæri að umhverfið innan bæjarstjórnar væri ekki heilbrigt. Tveir af ellefu bæjarfulltrúum væri í nánum fjölskyldutengslum við íþróttahreyfinguna. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri hefur vísað því á bug að lög hafi verið brotin og segir afgreiðslu peninganna eðlilega.

Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála sagði sig frá málinu vegna þess að Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs, er fyrrverandi aðstoðarmaður Sigurðar Inga. Það kom í hlut Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að skoða málið. Hún komst að þeirri niðurstöðu að vísa kærum minnihlutans frá. Þó væri tilefni til þess að ráðuneytið tæki til athugunar málsmeðferð bæjaryfirvalda í Hafnarfirði í málunum tveimur.

Guðmundur Ingi hefur nú verið settur til að taka þá ákvörðun.


Tengdar fréttir

Segir bæjaryfirvöld fíflast með bókhald Hafnarfjarðarbæjar

Fulltrúi Bæjarlistans í Hafnarfirði segir bæjaryfirvöld fíflast með bókhald sveitarfélagsins í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu í Kaplakrika. Formaður bæjarráðs segir hundruð milljóna sparast með breyttu fyrirkomulagi uppbyggingarinnar.

Hafnarfjörður kaupi hús í eigin eigu af FH

Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vill kaupa þrjú knatthús á 790 milljónir. Eitt húsið er reyndar í 80 prósent eigu bæjarins. Minnihlutinn segir ekkert verðmat liggja fyrir og því óvarlega farið með peninga bæjarbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×