Innlent

Loka á djamm ungmenna við Hvaleyrarvatn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Steinar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Steinar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Fréttablaðið/Vilhelm
„Okkar reynsla er sú að þetta sé ekki útivistarfólk heldur fólk sem er komið gagngert til að skemmta sér og finna eitthvert afdrep þar sem það fær að vera í friði,“ segir Steinar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Skógræktar­félags Hafnarfjarðar.

Að beiðni Skógræktarfélagsins verður veginum að Hvaleyrarvatni lokað um áramótin og að kvöldi þrettánda dags jóla. Greidd voru atkvæði um þetta í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar á þriðjudag og voru þá þrír fulltrúar samþykkir lokun en tveir á móti.

Fyrst og fremst eru það ungmenni sem komin eru með bílpróf, segir Steinar, sem koma að Hvaleyrarvatni á þessum kvöldum. Aðspurður segir hann að veginum að vatninu hafi aldrei áður verið lokað á þennan hátt.

„Það virðist hafa aukist á síðustu árum að fólk komi gagngert að Hvaleyrarvatni til að skjóta flugeldum og kveikja bál um áramót og þrettándann. Þessu fylgir sóðaskapur og ákveðin eldhætta þegar verið er að skjóta flugeldum þvers og kruss,“ útskýrir Steinar.

Mikið af flugeldaleifum endar í vatninu sjálfu með tilheyrandi sóðaskap og fyrirhöfn fyrir skógræktarmenn. „Þegar fólk er að mæta á útivistarsvæðið um morguninn til að viðra hundinn eða skokka þá er allt í óþverra,“ segir Steinar. – gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×