Íslenski boltinn

Eiður Smári: Arnar er einn af fáum sem ég hefði tekið þetta skref með

Anton Ingi Leifsson skrifar
KSÍ greindi frá því á blaðamannafundi í dag að Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen væru teknir við U21 árs landsliði Íslands í knattspyrnu.

Arnar Þór hefur þjálfað og spilað í Belgíu síðustu tvö áratugi en Arnar er aðstoðarþjálfari Lokeren og verður það út yfirstandandi leiktíð.

„Ég hef unnið mikið hjá Lokeren í þessum aldursflokki. Ég var í tvö ár þjálfari varaliðs Lokeren og þar er sami aldursflokkur á strákum,“ sagði Arnar í samtali við Guðjón Guðmundsson.

„Mér líður mjög vel að vinna með ungum og efnilegum drengjum. Það er ekkert skemmtilegra en að sjá einhvern sem maður getur kennt svo þeir geti tekið næsta skref upp á við og komist í A-landsliðið.“

Starfið er það fyrsta sem Eiður tekur að sér í þjálfun en hann segir að Arnar sé hinn fullkomni meðþjálfari enda þekkjast þeir vel frá fornu fari.

„Þetta er virkilega spennandi. Við eigum mikið af ungum og efnilegum strákum. Það eru leikmenn sem eru nú þegar með reynslu að spila fyrir U21 og eru gjaldgengir í næstu keppni.“

„Svo er að sjá hvort einhverjir hafa stimplað sig inn í A-landsliðið og það er mikið af strákum erlendis. Einnig hér heima í Pepsi og Inkasso. Það er með nægum af fylgjast.“

„Arnar er einn af fáum sem ég hefði tekið þetta skref með. Við þekkjum vel sem persónur, einnig sem leikmenn og innsýn hvers annars á fótboltavellinum. Ég held að sú blanda er góð.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×