Eldur kviknaði í íbúðarhúsi við Holtagerði í Kópavogi um hádegisbil í dag. Íbúi á efri hæð hússins var fluttur á slysadeild. Lið frá fjórum stöðvum var sent á staðinn og er enn unnið að því að ráða niðurlögum eldsins, að sögn varðstjóra.
Húsið er tvær hæðir og kom eldurinn upp á efri hæðinni. Ein kona, íbúi á efri hæð, var inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði en hún var komin út þegar slökkvilið bar að garði. Konan var í kjölfarið flutt á slysadeild.
Töluverðar skemmdir urðu á húsinu en þegar fréttastofa náði tali af varðstjóra var verið að rjúfa þak og rífa niður loft á efri hæðinni. Ekki var búið að slökkva eldinn klukkan 12:30 en slökkviliðsmenn telja sig hafa náð tökum á honum.
Ekki er vitað um eldsupptök að svo stöddu. Þá er varðstjóra ekki kunnugt um stöðuna á neðri hæð hússins en eldurinn náði ekki að breiðast þangað út.
Uppfært klukkan 14:00:
Búið er að slökkva eldinn og er slökkvilið á leið af vettvangi. Þá hefur lögregla tekið við rannsókn málsins. Að sögn varðstjóra er fulltrúi frá tryggingafélaginu einnig mættur á staðinn til að meta tjónið. Talsverðar skemmdir urðu á efri hæð hússins en varðstjóra var ekki kunnugt um neitt tjón á neðri hæðinni.
Innlent