Innlent

Ráðgjafar Reykhólahrepps í vondum málum í Noregi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá framkvæmdum í Osló. Bílainnkeyrsla niður í kjallara fyrir þinghúsbyggingarnar er hluti verksins.
Frá framkvæmdum í Osló. Bílainnkeyrsla niður í kjallara fyrir þinghúsbyggingarnar er hluti verksins. Mynd/Stortinget.
Norska verkfræðistofan Multiconsult er miðdepillinn í einhverju mesta byggingahneyksli Noregs, gríðarlegri framúrkeyrslu á kostnaði við endurbyggingu skrifstofubyggingar norska Stórþingsins í miðborg Oslóar. Nýjustu fréttir eru þær að forstjóri Multiconsult var rekinn í þarsíðustu viku. Þetta sama fyrirtæki veitti Reykhólahreppi umdeilda ráðgjöf vegna leiðarvals Vestfjarðavegar. 

Stórþingið höfðaði í fyrra skaðabótamál gegn Multiconsult og krafði fyrirtækið um 1,8 milljarða íslenskra króna í bætur. Ráðamenn norska þingsins telja ráðgjafafyrirtækið bera höfuðábyrgð á því að upphaflegar kostnaðaráætlanir hafa reynst fjarri raunveruleikanum, en málið hefur verið eitt helsta hneykslismál norskra fjölmiðla undanfarin misseri. 

Stórþingið réð Muliconsult sem ráðgjafa við endurbætur á skrifstofuálmum við Prinsens gate 26. Ráðist var í framkvæmdirnar á grundvelli áætlunar Multiconsult upp á 15 milljarða íslenskra króna. Kostnaður hefur reynst ríflega tvöfalt meiri og stefnir nú í 32 milljarða íslenskra króna. Multiconsult hefur hafnað bótakröfunni en engu að síður boðist til að greiða Stórþinginu andvirði 125 milljóna íslenskra króna en málið er nú rekið fyrir norskum dómstólum. 

Málið hefur stórskaðað orðspor Multiconsult og hafa tekjur þess dregist verulega saman. Fyrr í mánuðinum ákvað stjórn fyrirtækisins að reka forstjórann, Christian Nørgaard Madsen, og var hann látinn taka pokann sinn samdægurs. 

Svona er stórbrú þvert yfir mynni Þorskafjarðar samkvæmt R-leið sýnd í skýrslu Multiconsult fyrir Reykhólahrepp.Mynd/Úr skýrslu Multiconsult.
Hreppsnefnd Reykhólahrepps réð Multiconsult sem ráðgjafa í fyrravor eftir að Hagkaupsbræður buðu fram fimm milljóna króna styrk til að greiða kostnaðinn. Norska verkfræðistofan komst að þeirri niðurstöðu að svokölluð R-leið með brú yfir mynni Þorskafjarðar myndi kosta álíka mikið og Teigsskógarleiðin. Vegagerðin hafnaði kostnaðarmati Multiconsult og taldi R-leiðina fjórum milljörðum dýrari. 

Samtökin Landvernd átöldu Vegagerðina í fréttatilkynningu í gær fyrir að skoða ekki R-leiðina á grundvelli ráðgjafar Multiconsult.


Tengdar fréttir

Efast um brúarhugmynd Norðmannanna

Vegagerðin telur að þverun Þorskafjarðar, sem norskir ráðgjafar leggja til sem lausn vegamála í Gufudalssveit, sé dýrari lausn en tillögur Vegagerðarinnar um brúargerð gera ráð fyrir.

R-leið um Reyk­hóla féll á um­ferðar­öryggis­mati

Svokölluð R-leið, með stórbrú þvert yfir Þorskafjörð, sem sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur stefnt að, féll á nýju umferðaröryggismati og þyrfti fjögurra milljarða króna kostnaðarauka til að hún teldist hæf til að bera Vestfjarðaumferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×