Innlent

600 milljónir skornar af vegafé Vestfjarða

Kristján Már Unnarsson skrifar
400 milljónir króna verða skornar niður af vegaframlögum til Vestfjarða á þessu ári, samkvæmt breytingartillögu við samgönguáætlun, sem stjórnarmeirihlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lagði fram síðdegis. Þetta er langstærsta fjárhæðin til að mæta 535 milljóna hagræðingarkröfu fjárlaga en peningana átti að nota í Gufudalssveit í ár.

Niðurskurðurinn er skýrður með því að enn ríki óvissa um hvort og hvenær Reykhólahreppur veiti framkvæmdaleyfi fyrir því að hefjast handa við vegagerð.

Ekki var farin sú leið að flytja fjárveitinguna yfir í annað verkefni á Vestfjörðum á þessu ári heldur var hún alfarið skorin af fjórðungnum. Þingnefndin leggur þess í stað til fjárveitingu á árinu 2023 þannig að ekki þurfi að koma til seinkunar verkloka á veginum um Gufudalssveit. 

Þessu til viðbótar eru 200 milljónir króna fluttar af fjárveitingu Gufudalssveitar til að kosta sjóvarnagarð á Akranesi; 100 milljónir í ár og 100 milljónir á næsta ári, með þeim orðum að fyrir liggi að lagning Vestfjarðavegar geti fyrst hafist árið 2020. Vegna niðurrifs Sementsverksmiðjunnar séu breyttar aðstæður á Faxabraut á Akranesi sem skilgreind er sem stofnvegur. Sjór gangi yfir veginn og hamli uppbyggingu á svæðinu þar sem íbúðarbyggð er fyrirhuguð, segir í greinargerð.

Frá niðurrifi Sementsverksmiðjunnar. 200 milljóna fjárveiting flyst frá Vestfjarðavegi til Faxabrautar á Akranesi.vísir/anton brink
Fjárveitingar til Vestfjarðavegar í Gufudalssveit lækka við þessar breytingar úr 600 milljónum króna niður í 100 milljónir í ár og á næsta ári úr 1.600 milljónum niður í 1.500 milljónir, eða samtals um 600 milljónir króna þessi tvö ár. 

Aðrar fjárhæðir, sem lagt er til að skornar verði niður til að mæta hagræðingarkröfunni í ár, eru tiltölulegar lágar miðað við Vestfjarðaniðurskurðinn. Það eru almennur rekstur Vegagerðarinnar um 7,3 milljónir króna, þjónusta Vegagerðarinnar um 40 milljónir króna, styrkir Vegagerðarinnar til almenningssamgangna um 27,6 milljónir króna og framkvæmdir við vita og hafnir um 2 milljónir króna. Þá verður fjárveiting til Samgöngustofu lækkuð um 37 milljónir króna og til flugvalla og flugleiðsögu um 21 milljón króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×