Innlent

Vegagerðin býður út Reykjanesbraut

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kafli Reykjanesbrautar, frá kirkjugarðinum í Hafnarfirði að Krísuvíkurgatnamótum, verður tvöfaldaður.
Kafli Reykjanesbrautar, frá kirkjugarðinum í Hafnarfirði að Krísuvíkurgatnamótum, verður tvöfaldaður. Stöð 2/Björn Sigurðsson.
Vegagerðin hefur boðið út tvöföldun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Lengd útboðskaflans er um 3,2 kílómetrar og skal vera að fullu lokið 1. nóvember 2020. 

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðar og veitufyrirtækja. Því fylgir breikkun vegbrúar yfir Strandgötu og gerð tveggja göngubrúa yfir Reykjanesbraut við Ásland og Þorlákstún. Einnig er innifalin gerð umtalsverðra hljóðvarna, bæði hefðbundinna hljóðmana, hljóðveggja og mana með jarðvegshólfum, að því er fram kemur í útboðsauglýsingu. 

Þá eru í verkinu breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og veglýsing. Loks er innifalinn frágangur á landi og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu. 

Útboðið er einnig auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Tilboðsfrestur rennur út þann 19. mars og verða tilboð opnuð samdægurs hjá Vegagerðinni.

Mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sem opnuð voru fyrir rúmu ári, voru undanfari tvöföldunar inn í Hafnarfjörð.Mynd/Vegagerðin.
Fyrr í mánuðinum voru opnuð tilboð í breytingar á vegamótum Reykjanesbrautar og Fjarðarhrauns við Kaplakrika í Hafnarfirði. Tvöfalda á vinstri beygju frá Fjarðarhrauni inn á Reykjanesbraut til austurs og bæta við nýrri aðrein meðfram Kaplakrikalæk. 

Fjögur tilboð bárust og reyndust þau öll yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á 112 milljónir króna. Lægsta boð átti Loftorka í Garðabæ; 128,8 milljónir króna, sem er 15% yfir kostnaðaráætlun. Næstlægsta boð kom frá PK verki í Kópavogi, upp á 133 milljónir króna. 

Breytingum í vegamótum skal vera lokið 15. júlí í sumar. Frágangi utan vega skal svo vera lokið 1. ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×