Læknadópið Contalgin er eina dópið, sem selt hefur verið allar götur frá árinu 2000, sem hefur hækkað í verði að raunvirði. Verð á amfetamíni, LSD, hassi og e-töflum hefur í grófum dráttum staðið í stað undanfarna tvo áratugi. Þetta dóp kostar það sama í krónum talið – sem þýðir að verðið hefur hrunið að raunvirði.
Verð á fíkniefnum helst jafnan í hendur við framboð og eftirspurn. Ef marka má þá venju má gera ráð fyrir að nóg sé til af öllum tegundum fíkniefna.
Verðið á götunni
Contalgin skammturinn kostaði 1.200 krónur árið 2000, Verðið fór upp í 5.000 krónur árið 2009 en lækkaði svo niður í 4.000. Í fyrra rauk verðið upp í 8.000 krónur en stendur nú 5.000 krónum, samkvæmt könnun SÁÁ. Verðhækkunin nemur 292% frá árinu 2000.Verð á amfetamíni, LSD, hassi og e-töflum, hefur í grófum dráttum staðið í stað undanfarna tvo áratugi. Þetta dóp kostar það sama í krónum talið - sem þýðir að verðið hefur hrunið að raunvirði. Sem dæmi má nefna að E-tafla kostaði 2.960 krónur árið 2000 en kostar 2.100 krónur í dag. Ef verðið hefði fylgt þróun vísitölu neysluverðs myndi e-taflan kosta 7.000 krónur í dag.
Segja má að verð hafi snarlækkað á fíkniefnum frá því upphafi árs í fyrra. Kókaín hefur lækkað úr 17 þúsund krónum í 14.600 krónur, Contalgin úr 8.000 í 5.000 og amfetamín úr 4.500 í 3.300 krónum. Hass hefur lækkað úr 3.800 krónum í 2.300 krónur, e-töflur úr 3.000 krónum í 2.100 og LSD úr 3.000 í 750 krónur, samkvæmt könnuninni.