Innlent

Blönduós orðið vaxtarsvæði og fimm hæða blokk áformuð

Kristján Már Unnarsson skrifar
20 íbúðir verða í fjölbýlishúsinu, sem rís á suðurbakka Blöndu.
20 íbúðir verða í fjölbýlishúsinu, sem rís á suðurbakka Blöndu. Grafík/ASK, arkítektar.
Blönduós er að fá sitt fyrsta háhýsi, fimm hæða íbúðablokk. Eftir áratugadeyfð í húsbyggingum er bærinn á skömmum tíma að úthluta lóðum undir nærri fimmtíu nýjar íbúðir. Þetta kom fram í þættinum „Um land allt“ og í fréttum Stöðvar 2. 

Kannski finna fáir betur æðasláttinn í byggingageiranum á Blönduósi en smiðirnir í Trésmiðjunni Stíganda. 

Guðmundur Arnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Trésmiðjunnar Stíganda.Stöð 2/Einar Árnason.
„Já, við finnum það að húsnæðisverð er búið að vera að hækka hér á staðnum og það eru að verða forsendur fyrir því að byggja hús á staðnum. Það er augljóslega vöntun á húsnæði,“ segir Guðmundur Arnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Stíganda. 

„Já, það kemur með meiri atvinnu. Þá vill fólk flytja á vaxtarsvæði. Hér er sannarlega orðið vaxtarsvæði frá og með síðasta ári og það þýðir það að fólk er að koma til baka, - af þeim sem fluttu í burtu. Jafnvel nýir íbúar eru að koma út af fjölgun atvinnutækifæra,“ segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar. 

Glöggt má sjá að Blönduós er að lifna við á ný. Fyrstu merki nýrra húsbygginga sjást. Búið er að taka nokkra húsgrunna og bærinn úthlutar lóðum sem aldrei fyrr.

Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri á Blönduósi.Stöð 2/Einar Árnason.
„Á síðasta ári vorum við að úthluta um 28 íbúðum og erum með 20 til viðbótar. Þannig að það eru þá 48 íbúðir sem eru í pípunum. Sumar eru í byggingu. Fyrstu tvö einbýlishúsin á síðasta ári voru byggð eftir tíu ára hlé,“ segir sveitarstjórinn. 

Þeir hjá Stíganda eru í startholunum að hefja smíði parhúsa og búnir að sækja um tvær lóðir, við Sunnubraut og Smárabraut. 

„Og við erum jafnvel að huga að því að byrja á framkvæmdum á Sunnubrautinni bara fljótlega á næstu vikum,“ segir Guðmundur.

 

Nýja blokkin rís við hlið þeirrar sem byggð var fyrir fjörutíu árum og sést hægra megin.Stöð 2/Einar Árnason.
Á bökkum Blöndu áformar félagið Uppbygging ehf. að hefja smíði fimm hæða fjölbýlishúss í næsta mánuði. 

„Sem er snyrtileg 20 íbúða blokk, sem er kærkomið inn í þetta samfélag,“ segir Valdimar. Það gefi eldra fólk færi á að flytja úr einbýlishúsum í þægilegar, nýjar íbúðir og ungt fólk geti á móti stækkað við sig ef slíkt þarf vegna barnafjölda. 

Fjallað er um gróskuna á Blönduósi í þættinum Um land allt. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×