Lögreglumenn munu á ný fá að fara í verkfall verði frumvarp Miðflokksins að lögum. Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Frumvörp þessa efnis hafa í tvígang verið lögð fram, síðast fyrir fimm árum. Í fyrra skiptið gekk málið til allsherjar- og menntamálanefndar og voru umsagnir sem bárust við frumvarpið jákvæðar.
Verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn með lögum árið 1986 en fram að því höfðu þeir rétt á að fara í verkfall til að sækja kjarabætur. Afnámið var hluti af samkomulagi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra en í staðinn skyldu lögreglumenn fá kauptryggingu ef samkomulag næðist ekki.
„Eðli málsins samkvæmt yrði verkfallsréttur lögreglumanna háður þeim fyrirvara að ávallt þarf að halda uppi neyðar- og öryggisþjónustu. Hins vegar væri fjöldinn allur af störfum innan lögreglunnar sem eigi að síður væri hægt að leggja niður væri slíkt talið nauðsynlegt til stuðnings kröfum um kjarabætur. Landssamband lögreglumanna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á verkfallsréttinn í kjarabaráttu og hafa ýmis lögreglufélög á landsvísu ályktað í þá veru,“ segir í umsögn með frumvarpinu.
Lögreglumenn fái aftur að fara í verkfall
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
