Frumvarpið sem Ólafur hyggst leggja fram er til þess ætlað að breyta lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, eða réttara sagt um hámarksfjölda aðstoðarmanna.

Yrði þetta frumvarp að veruleika myndi það aðeins hafa áhrif á gamla þingflokk Ólafs, Flokks fólksins. Hann telur hins vegar að hér sé um eðlilegt þingmál að ræða til að gæta aðhalds í ríkisrekstrinum.
„Má vera að á þessu þingi skuli það aðeins hafa áhrif á einn flokk, en ástæða þess að ég vil leggja þetta mál fram er sú að ég tel eðlilegt að við gætum aðhalds. Þessu frumvarpi er ekki beint gegn neinum og af engum tekið. Ég vil aðeins að við förum vel með opinbert fé,“ segir Ólafur.
Augljóst hefur verið upp á síðkastið að andað hefur köldu á milli Flokks fólksins og fyrrverandi liðsmanna hans sem reknir voru úr flokknum eftir uppákomuna á Klaustri í lok nóvember. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir Ólaf auðvitað verða að eiga þetta við sjálfan sig.
„Ég hef enga sérstaka skoðun á frumvörpum Ólafs Ísleifssonar og ef hann vill fara þessa leið þá gerir hann það bara,“ segir Inga. „Það sjá hins vegar allir hvað hér er um að vera.“