Körfubolti

Brandon með aðeins fimm prósent þriggja stiga nýtingu í tapleikjum Stjörnunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brandon Rozzell á ferðinni á móti ÍR
Brandon Rozzell á ferðinni á móti ÍR Vísir/Vilhelm
Augun verða örugglega á einum manni þegar Stjarnan og ÍR mætast í þriðja sinn í kvöld í undanúrslitaeinvígi sínu í Domino´s deild karla í körfubolta.

Maðurinn sem Stjörnumenn þurfa að koma aftur í gang og ÍR-ingar leggja ofuráherslu að stoppa er bandaríski bakvörðurinn Brandon Rozzell.

Þriðji leikur Stjörnunnar og ÍR fer fram í Mathús Garðabæjar höllinni í Garðabæ í kvöld og hefst klukkan 19.15. Domino´s Körfuboltakvöld verður á staðnum og hefst útsendingin klukkan 18.30.

Aðra seríuna í röð er staðan 1-1 í einvígi Stjörnunnar í úrslitakeppninni en Stjörnumenn töpuðu aftur á dögunum eftir draugaleik frá Brandon Rozzell.

Brandon Rozzell hefur verið frábær með Stjörnuliðinu eftir að hann kom um áramótin og var með 24,3 stig og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni.

Rozzell hefur skorað 18,7 stig og gefið 3,3 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni en það er gríðarlega mikill munur á framlagi hans í sigurleikjunum fjórum og tapleikjunum tveimur.

Brandon Rozzell skoraði aðeins 9 stig í tapinu í Seljaskóla á mánudagskvöldið eftir að hafa skoraði 28 stig í leik eitt sem Stjarnan vann með 33 stigum. Hann klikkaði á öllum sjö þriggja stiga skotum sínum í leik tvö eftir að hafa hitt úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum í leik eitt.

Í tveimur tapleikjum Stjörnunnar í úrslitakeppninni hefur Brandon Rozzell aðeins hitt úr 1 af 19 þriggja stiga skotum sínum sem gerir aðeins fimm prósent skotnýtingu.

Brandon Rozzell er með 22,5 stig og 3,8 stoðsendingar í leik í fjórum sigurleikjum Stjörnunnar í úrslitakeppninni í ár en í tapleikjunum eru meðaltöl hans aðeins 11,0 stig og 2,5 stoðsendingar.

Þriggja stiga skotnýtingin í sigurleikjunum er 50 prósent þar sem hann hefur skorað fjóra þrista að meðaltali.

Það munar meiri en 30 prósent á skotnýtingu Brandon Rozzell í sigur- og tapleikjum. Hann hefur hitt úr 52,4 prósent skota sinna í sigrunum en aðeins 22,2 prósent skota hans í tapleikjum hafa endaði í körfunni.

Framlag hans er síðan 22,0 í sigurleikjunum en 7,0 í tapleikjunum. Það er heldur ekki eins og að hann reyni að spila frekar uppi félaga sína þegar hann er ekki að hitta.

Brandon Rozzell er með færri stoðsendingar og fleiri reynd skot í tapleikjunum tveimur heldur en sigurleikjunum. Rozzell er með 18,0 skot að meðaltali í tapleikjunum en 15,8 skot að meðaltali í sigurleikjunum.

Brandon Rozzell í úrslitakeppninni 2019:

Stig í leik

Sigurleikir Stjörnunnar: 22,5

Tapleikir Stjörnunnar: 11,0

Stoðsendingar í leik

Sigurleikir Stjörnunnar: 3,8

Tapleikir Stjörnunnar:  2,5

Framlag í leik

Sigurleikir Stjörnunnar: 22,0

Tapleikir Stjörnunnar: 7,0

Þriggja stiga skotnýting

Sigurleikir Stjörnunnar: 50% (16 af 32)

Tapleikir Stjörnunnar: 5,2% (1 af 19)

Þriggja stiga körfur í leik

Sigurleikir Stjörnunnar: 4,0

Tapleikir Stjörnunnar: 0,5

Skot tekin í leik

Sigurleikir Stjörnunnar: 15,8

Tapleikir Stjörnunnar: 18,0

Skotnýting

Sigurleikir Stjörnunnar: 52,4% (33 af 63)

Tapleikir Stjörnunnar:  22,2% (8 af 36)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×