Innlent

Vonar að útilistaverkið Pálmatré rísi í Vogabyggð

Andri Eysteinsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur vonar að útilistaverkið Pálmatré rísi í nýju hverfi í Vogabyggð og spáir að það verði það mikill gleðigjafi. Hún segir að oft skapist mikil umræða og jafnvel gagnrýni um útilistaverk en umræðan um þetta verk í vetur hafi verið sérlega harkaleg.

Mikil umræða skapaðist eftir að tilkynnt var í janúar að útilistaverkið pálmatré hefði unnið í einni viðamestu samkeppni um útilistaverk sem haldin hefur verið hér á landi. Borgarfulltrúar minnihlutans gagnrýndu kostnaðinn við verkið en gert er ráð að hann verði um 140 milljónir króna. Þá var gagnrýnt að ólíklegt væri að pálmatré gæti lifað af íslenska veðráttu.

Borgarfulltrúar meirihlutans ákváðu að láta kostnaðargreina verkefni og er það mál nú í ferli. Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur vonar að verkið fái að rísa.

„Ég vona að það verði og þá kannski geti menn tekið umræðuna um listina, um hvaða áhrif þetta verk hefur á umhverfi sitt og hverskonar gleðigjafi það verður vonandi í Vogabyggð,“ segir Ólöf Kristín Pálsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Rætt var um list í almannarými á Kjarvalsstöðum í gær. Þar kom fram að í gegnum tíðina hafi oft skapast mikil umræða um útilistaverk.

„Ég held að í þessu tilfelli hafi verkið komið inn í viðkvæmt pólitískt ástand. Þeir sem voru neikvæðir voru sérstaklega háværir en þetta á sér hliðstæðu í sögunni,“ segir Ólöf safnstjóri.

Sólfarið við Sæbrautina í Reykjavík er meðal þeirra útilistaverka sem var mikið gagnrýnt þegar það var sett upp á sínum tíma og hafði fólk til dæmis áhyggjur af því að slysahætta gæti skapast í kringum verkið sem nú er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Reykjavík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×