Tilkynnt var á laugardaginn að geimfarið hafi lent í„fráviki“við reglubundna prófun. Lítið annað var gefið upp utan þess að enginn hafi slasast. Miðað við myndband sem lekið var á netið, og sjá má hér að neðan, virðist frávikið hafa verið sprenging.
Hvorki SpaceX né NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna, hafa staðfest að geimfarið hafi sprungið né hefur fengist staðfest að myndbandið sé ekta.Á vef tæknisíðunnar ArsTechnicasegir hins vegar að efni myndbandsins rími við frásagnir heimildarmanna síðunnar af atvikinu.
Geimfarið sem var í prófunum er það sama og flogið var til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og til baka í síðasta mánuði. Var það fyrsta tilraunaflug Crew Dragon.
Þróun Crew Dragon er hluti af samningi SpaceX við NASA um mannaðar geimferðir auk þess sem að SpaceX hyggst sjálft hefja mannaðar geimferðir. Stefnt var að því að fyrsta mannaða geimferðin á vegum NASA með Crew Dragon yrði í október. Ljóst er að sprengingin mun setja strik í reikninginn og líklegt að geimfarar á vegum NASA ferðist ekki út í geim í Crew Dragon geimfari Space X fyrr en á næsta ári.