Skoðun

Fyrirmyndir

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Veðrið hefur verið fáránlega gott undanfarið og það lagar verulega andlegt ástand þjóðarinnar. Síðasta sumar var ömurlegt, a.m.k. fyrir okkur á suðvesturhorninu, endalaus rigning og leiðindi. Það er ótrúlegt hvað sól og gott veður getur glatt geðið í okkur, þjóðin verður besta útgáfan af sjálfri sér þegar veðrið er gott.

En það er fleira sem gleður en bara veðrið. Íþróttafólkið okkar heldur áfram að standa sig vel, sama hvert litið er. Bara í þessari viku unnum við Tyrki í fótbolta og handboltalandsliðið komst skrefi nær því að tryggja sig inn í úrslitakeppni Evrópumótsins, í ellefta sinn í röð. Við eigum það til að gleyma því hversu í raun fjarstæðukennt það er að 350.000 manna þjóð eigi landslið karla og kvenna í fjölmörgum íþróttagreinum sem ítrekað standa jafnfætis þeim bestu í heiminum. En kannski er það galdurinn, við neitum að viðurkenna hvað við erum fá, látum það ekki skilgreina okkur. Þetta er ótrúlega mikilvægt fyrir börnin okkar og ungt fólk. Skilaboðin sem íþróttafólkið okkar sendir til þeirra eru þau að það skiptir ekki máli hvaðan þú kemur. Það sem skiptir máli er hversu mikið ertu tilbúinn til að leggja á þig, þú uppskerð sem þú sáir.

En þetta á ekki bara við um íþróttirnar. Sömu skilaboð sendir listafólkið okkar, tónlistarmennirnir og rithöfundarnir og allir þeir sem hafa breitt út menningu okkar og listir um víða veröld. Þessar fyrirmyndir eru gríðarlega mikilvægar, það er ótrúlega verðmætt að ungt fólk alist upp í því andrúmslofti að allir vegir séu færir, ef nógu hart er lagt er að sér.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×